Þriðjudagur 16.07.2013 - 12:00 - Lokað fyrir ummæli

Að geta sagt NEI

Svo virðist sem Ísland sé komið fram yfir síðasta söludag þegar kemur að helstu innviðum samfélagsins.  Lífeyriskerfið, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, stjórnsýslan og húsnæðislánakerfið eru dæmi um kerfi sem þarf að endurnýja.

Vandamálið er að flest kerfi hökta enn, þau eru dýr í rekstri, flest of stór og óskilvirk, og alls ekki í takt við stöðu Íslands sem fátækasta og skuldugasta lands Norðurlandanna.  Breytingar eru nauðsynlegar en það er hræðsla við breytingar.  Flestir halda að hrunið gangi yfir og allt verði eins og áður.  Það er því miður tálsýn.

Það er fátt sem bendir til að staða Íslands innan Norðurlandanna muni breytast mikið á næstu áratugum.  Eina von Íslands til að ná fyrri stöðu er að olía finnist í vinnanlegu magni en það verður varla fyrr en eftir 2050.

Því fyrr sem þjóðin kemst út úr sorgarferli hrunsins og sættir sig við orðinn hlut, því betra.   Verkefnin bíða og efnin eru takmörkuð.  Það verður útilokað að uppfylla væntingar eða kröfur þjóðarinnar m.t.t. lífskjara eða velferðar um nána framtíð, því þarf stjórnendur sem geta forgangsraðað og hafa bein í nefinu til að segja NEI.  Þetta litla þriggja stafa orð er lykilinn að nauðsynlegum breytingum á íslensku samfélagi sem miða að því að sníða landinu stakk eftir vexti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur