Þriðjudagur 16.07.2013 - 06:34 - Lokað fyrir ummæli

Magma stýrt af „kamelljóni“

Landsbréf sem er í eigu Landsbankans gaf nýlega út yfirlýsingu varðandi Magma bréfið, þar sem framkvæmdastjórinn sagði:

“Ég fagna því að kauptilboði Landsbréfa hafi verið tekið, en við teljum skuldabréfið spennandi fjárfestingakost.”

Hvað er svona spennandi við skuldabréfið og hvað eru fjárfestar að kaupa?

Er Landsbréf að selja stöðugt sjóðsflæði eða veðið á bak við skuldabréfið sem eru hlutabréf í HS Orku?

Umfjöllun í DV virðist gefa í skyn að greiðsluflæðið af bréfinu sé ekki stöðugt og er jafnvel búist við greiðslufalli þannig að eigendur gætu þurft að ganga að veðum?

Þetta vekur upp spurningu um hvernig staðið var að verðlagninu á bréfinu til OR?  Byggðist það á sjóðsflæðisútreikningum eða verðmati á veðinu á bak við bréfið? Þegar sjóðsflæði á óskráðu bréfi er ótryggt borga fjárfestar varla meira en verð undirliggjandi veðs.

Orð framkvæmdastjórans verða því varla túlkuð á annan hátt en að það sem sé “spennandi” við þennan fjárfestingakost séu yfirráð yfir hlutabréfum í HS Orku frekar en ótryggt sjóðsflæði?  En hvers virði er HS Orka?  Ekki hefur hún reynst Alterra (áður Magma) sá gullkálfur sem ýmsir spáðu, hlutabréfin hafa fallið um 80% á þremur árum í kauphöllinni í Toronto.

Alterra hefur verið að reyna að selja HS Orku eins og kom fram í yfirlýsingu til kanadísku kauphallarinnar.  Sú sala rann út í sandinn í byrjun árs og því er orðið mjög brýnt fyrir Alterra að endurfjármagna skuldabréfið á bak við kaupin á HS Orku.  Fyrirtækið er í lausafjárvanda enda er ekki algengt að stjórnarformaður skráðs fyrirtækis veiti því persónulega lánalínu.  Alterra  segir jafnframt í ársskýrslu fyrir árið 2012 að það þurfi m.a. að leita á fjármálamarkaði til að endurfjármagna Magma bréfið.

„The Company believes the long term bond liabilities of Magma Energy Sweden A.B., assumed upon acquisition of HS Orka, may be funded from a combination of cash flows from operations and accessing capital markets.“

En það virðist ganga erfiðlega enda ekki ljóst hvernig Alterra ætlar að skaffa sjóðsflæði til að tryggja endurgreiðslur á nýju skuldabréfi eða láni? Og hver er þá lausnin?

Ein leið er að gjaldfella bréfið í gegnum Magma Energy Sweden AB en í umfjöllun stjórnenda um ársreikning 2012, í kaflanum afborganir af lánum segir:

All entities are expected to generate sufficient cash flow to service and repay their existing long-term loans, except for Magma Energy Sweden which is a holding Company that generates no cash flow of its own.“

Ross myndi bíða álitshnekkis í Kanada ef þessi leið yrði farin og hann á mikið undir að halda kanadískum lífeyrissjóðum góðum.

Hin leiðin er að leita að endurfjármögnun á Íslandi.  Og viti menn, hér munu gjaldeyrishöftin líklega bjarga Alterra, því að á Íslandi eru bréf sem bera stopular greiðslur í gjaldeyri “spennandi” kostur.  OR getur auðvita ekki farið að veita Magma Energy Sweden endurfjámögnun í gegnum skilmálabreytingar og lengingu á skuldabréfinu, en aðrir fjárfestar gætu tekið þátt í slíku.  Því átti OR ekki annan kost en að selja bréfið.  Nýir fjárfestar sem kaupa bréfið munu síðan strax þurfa að semja við Alterra um að létta á skuldum félagsins.  Líklega verður þetta einhver samsuða af hlutabréfum í HS Orku og nýju skuldabréfi til lengri tíma.  Öllu verður þessu pakkað sama í spennandi umbúðir af Landsbréfum svo hægt verði að koma HS Orku á markað sem fyrst, þannig að allir græði nema auðvita OR.

Þeir sem eru spenntir fyrir þessu tækifæri ættu að lesa viðtal við Ross Beaty í kandadíska dagblaðinu The Globe and Mail frá 12. apríl 2013 sem birtist undir titlinum “Between a rock and a green place”  Þar lýsir Ross sér á eftirfarandi hátt:

“I am a chameleon,” Mr. Beaty says happily over lunch at Diva restaurant on Vancouver’s Howe Street. “I have ultragreen environmental instincts but I don’t want government meddling with my abilities as an entrepreneur. I don’t want them getting in my face and telling me what to do. It is a contradiction and I just have to live with it.”

Það verður fróðlegt að fylgjast með endalokum þessa máls.  Mun Alterra takast að snúa taflinu við og láta íslenska lífeyrissjóði bjarga sér?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur