Föstudagur 19.07.2013 - 08:01 - Lokað fyrir ummæli

Græða á hótelum

Allir ætla að græða á hótelbyggingum og sjálfsagt munu margir gera það, en það græða ekki allir þegar gert er út á lágt gengi og lág laun.

Þeir sem eru bjartsýnastir í hótelbransanum hljóta að vinna eftir þeirri forsendur að lág laun og lágt gengi haldist hér sem lengst – á því byggir þessi gróðaformúla.

Ferðamennskan er ansi tvíbent sverð.  Það eru ekki mörg varanleg hálaunastörf sem hún skapar og ekki þarf hún mikið af háskólamenntuðum sérfræðingum.

Þá virðast flest hótel vera fjármögnuð í krónum og þannig er öll fjármögnunaráhættan innanlands og nota verður takmarkaðan gjaldeyri í þetta.  Hótelherbegi eru ekki ódýr í byggingu.  4 stjörnu hótel kosta um 20-25m kr. per herbergi og lúxus 5 stjörnu er yfir 30 m kr. herbergið.  Gjaldeyrir sem fer í hótelbyggingar er ekki notaður í annað.  Lönd þar sem hótelbyggingar virðast tímabundið arðbærasta fjárfestingin eru yfirleitt lítil og vanþróðu.

Þá er spurning hvort eigið fé í þessum hótelum sé nóg til að standa af sér sveiflur í eftirspurn, t.d. eitt myndarlegt Kötlugos? Í niðursveiflu eru það einmitt of stór 4 og 5 stjörnu hótel sem lenda helst í erfiðleikum.

Nær allir erlendir ferðamenn sem gista á hótelum koma hingað til lands með flugvélum, þannig að hótelrekstur er ansi háður stefnu og styrk flugfélaganna sem hingað fljúga.

Bankarnir mega halda vel á spöðum ef öll þessi hótellán eiga að borgast til baka á réttum tíma.  Ætli sé ekki rétt að fara að huga að afskriftasjóði fyrir hótelfjárfestingar.

Það eru nefnilega alltaf þessir ófyrsjánlegu forsendubrestir sem fara svo illa með fjárfestingar á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur