Mánudagur 22.07.2013 - 08:14 - Lokað fyrir ummæli

Kröfuhafar – 1 : Ríkisstjórn – 0

Það er ekki traustvekjandi þegar formaður fjárlaganefndar kallar hlutabréfaútgáfu til starfsmanna ríkisbankans “siðlausa”.

Eitthvað virðast samskiptaleiðir á milli yfirstjórnar bankans og endanlegra eigenda vera stirðar – svona “blautum tuskum” á ekki að kasta opinberlega.

Þá munu margir fjárfestar hugsa sig tvisvar um áður en þeir ákveða að kaupa hlut í svona stofnun.  Það er áhættusamt að vera minnihlutaeigandi í fyrirtæki þar sem stjórnin virðist ekki njóta fulls trausts meirihlutans?

Hins vegar sýnir þessi uppákoma hver hefur yfirhöndina í bankanum.  Hér er verið að uppfylla samning sem ríkið gerði við kröfuhafa bankans.  Og þó að ríkið eigi 98% af hlutafé bankans er ríkið hvorki stærsti né rétthæsti eigandi að efnahag bankans – það eru kröfuhafar í krafti gríðalegra stórra skuldabréfa sem Seðlabankinn segir að ógni gjaldeyrisstöðuleika landsins.

Seðlabankinn hefur ítrekað minnt ríkisbankann á mikilvægi þess að semja um lengingu á bréfunum en kröfuhafar eru eflaust tregir í taumi nema bankinn og ríkið sýni lit og uppfylli gamlan samning um hlutabréf til starfsmanna sem verðlaun fyrir að ná skilyrta bréfinu upp í topp.

Það má því segja að í leik kröfuhafa og nýrrar ríkisstjórnar hafi kröfuhafar skorað fyrsta markið.  Það verður “spennandi” að fylgjast með framhaldinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur