Föstudagur 26.07.2013 - 11:46 - Lokað fyrir ummæli

S&P skýtur föstum skotum

Enn ein skammstöfunarstofnunin sendir frá sér neikvætt álit um skuldaleiðréttingu Framsóknar.  Svo virðist sem enginn nema framsóknarmenn skilji þessa skuldaleiðréttingarleið.  Er ekki kominn tími til að framsóknarmenn leysi frá skjóðunni og útskýri hvernig þetta á allt að reddast?

Matsákvörðun S&P er áfall fyrir ríkisstjórnina, horfur fara úr stöðugum í neikvæðar og hætta er á að lánshæfismatið lendi í ruslaflokki á kjörtímabili ríkisstjórnarinnar.  Mat S&P skiptir máli þar sem það ræður verðlagningu og aðgangi Íslands að erlendri fjármögnun.

En það er ekki bara óvissa um fjármögnun skuldaleiðréttingarinnar sem veldur S&P áhyggjum, þeir velta fyrir sér hvort það séu að koma upp veikleikar í stjórnsýsluákvörðunum á Íslandi eða eins og þeir segja:

weakens our assessment of the effectiveness and predictability of policymaking

Þetta er alvarlegt og dregur úr trausti og trúverðugleika erlendra aðila, enda nýtur skammstöfunarstofnunin S&P miklu meira álits utan en innan Íslands.

Þá telur S&P að allar leiðir til að þvinga kröfuhafa (hrægamma) til að gefa eftir af kröfum sínum, muni skaða traust Íslands hjá erlendum fjárfestum og leiða til þess að enn erfiðara verði að lyfta gjaldeyrishöftunum, þveröfugt við kosningaloforð.

Enn eina ferðina er himinn og haf á milli túlkunar erlendar og innlendra aðila á sama hlutnum.  Innanlands ræður ofurbjartsýni og lýðskrum á meðan yfirvegun og raunsæi ríkir hjá erlendum fagstofnunum.  Þetta sýnir að hugarfar og viðhorf Íslendinga hafa lítið breyst á síðustu 5 árum.

Mat S&P kemur á versta tíma fyrir íslensk stjórnvöld.  Skuldaleiðréttingin er hálfbökuð kaka sem situr í nefnd.  Þá standa yfir samningar um að lengja í erlendu skuldabréfi ríkisbankans.  Á meðan eru erlendir aðilar að náð yfirhöndinni og kröfuhafar að styrkja stöðu sína.   Allt setur þetta aukinn þrýsting á stjórvöld að fara að útskýra málið.

Þetta sýnir hversu hættulegt það er að fara af stað með ófullmótaðar tillögur þar sem hlutirnir hafa ekki verið hugsaðir til enda.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur