Laugardagur 27.07.2013 - 11:08 - Lokað fyrir ummæli

Sjálfstætt mat S&P = hótun?

Nær öll lönd sem lenda í lækkuðu lánshæfismati hjá S&P eða Moody´s mótmæla slíkri ákvörðun.

Þegar S&P lækkaði lánshæfismat Bandaríkjanna mótmæltu stjórnvöld þar, en án árangurs.

Matsfyrirtækin gerðu stór mistök fyrir hrun sem þau ætla greinilega ekki að endurtaka.  Þau virðast hafa lært af reynslunni.  Í dag leggja þau áherslu á að veita fjárfestum tímanlegar upplýsingar um stöðu og áhættur í umhverfi þeirra aðila sem þau fylgjast með, byggða á sjálfstæðu mati.

Grundvöllur undir sjálfstætt mat byggir á að vera ekki mataður af upplýsingum frá einum aðila.  Auðvita eru S&P og Moody´s ekki fullkomnar stofnanir en þær eru leiðandi í heiminum um lánshæfismat ríkja og fyrirtækja – því breyta Íslendingar ekki.

Svo virðist sem menn hafi ekki lesið nýlegt mat S&P nógu vel.  Rökstuðningurinn fyrir breyttum horfum er tvíþættur.  Í fyrsta lagi snýst hann um óvissu um fjárhagslega stöðu ríkissjóðs og í öðru lagi um hugsanlega breytta hegðun og viðmið í pólitískri stefnumótun og ákvarðanatöku sem getur falið í sér aukna óvissu og áhættur.  Það er þessi seinni liður sem skýrir hvers vegna ekki er hægt að bera saman Icesave og skuldaniðurfellingarleiðina.  Icesave er milliríkjadeila sem þarf að leysa en skuldaniðurfellingin er pólitísk valákvörðun sem byggir á kosningaloforði og veikum efnahagslegum grunni.  Þetta skiptir máli.

Það verður að segja að S&P virðist hafa rétt fyrir sér.  Formaður fjárlaganefndar talar um að mat S&P feli í sér hótun!   Aðrir tala um að ekki sé vert að hlusta á erlendar skammstöfunarstofnanir.  Þá hefur ESB aðild verið sett á ís og sagt að Ísland eigi ekkert erindi þar inn.   Í augum erlendra aðila virðist hafa orðið stökkbreyting á viðhorfi íslenskra stjórnvalda til alþjóðlegra stofnanna og samvinnu.  Illskiljanleg og séríslensk einangrunarstefna virðist hafa tekið við.  Í þessu felst auðvita áhætta fyrir lítið og skuldugt ríki, sem rétt er að benda á.

Eina ráðið sem íslensk sjórnvöld hafa er að eyða óvissunni um skuldaniðurfellingarleiðina.  Hversu há er þessi upphæð, hvernig og hverjir eiga að fjármagna hana, á hvaða kjörum og yfir hvaða tímabil?  Ef svörin við þessum spurningum færa ekki skuldir frá einkageiranum yfir á ríkið og kröfuhafar verða ekki þvingaðir til að gefa eftir af kröfum sínum, þá er líklegt að horfur hjá S&P breytist aftur í stöðugar.

Vandamálið er hins vegar að eins og málin hafa þróast og tíminn líður styrkist staða kröfuhafa.  Mun skynsamlegra hefði verið að ganga fyrst til samninga við kröfuhafa og að þeim loknum upplýsa hvernig ráðstafa ætti hugsanlegum ávinningi.  Að byrja að úthluta hugsanlegum ávinningi áður en hann er í hendi er alltaf áhættusamt.  En þannig stjórnmálamenn velja kjósendur og við því er lítið að segja.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur