Sunnudagur 28.07.2013 - 13:43 - Lokað fyrir ummæli

Fá bestu rök að ráða?

Sjálfstætt mat S&P að það séu þriðjungslíkur að Ísland lendi í ruslaflokki á næstu 2 árum mun gera erlenda fjármögnun erfiðari og dýrari fyrir alla á Íslandi.

Flestir erlendir viðskiptabankar lána aðeins aðilum sem eru með lánshæfiseinkunn í fjárfestingaflokki og fáir bankamenn munu vilja taka þá áhættu að lána landi sem hefur færst yst á brúnina og gæti dottið ofan í rusl vegna pólitískrar óvissu.

Þeir sem versla í ruslinu eru jú hrægammarnir og þeirra bankamenn, þeir sjá gróðatækifæri þar sem aðrir versla ekki.  Það er því kaldhæðni örlaganna að kosningaloforð Framsóknar færir Ísland nær yfirráðasvæði hrægammanna, þveröfugt við það sem stefnt var á.  Svona geta málin tekið óvænta stefnu þegar menn hugsa ekki  hlutina til enda.

Erfiðari og dýrari fjármögnun fyrir ríkið er það síðasta sem Ísland þarf á að halda.  Þetta verður til þess að skerpa þarf á niðurskurði og tempra skattalækkanir.

Svigrúm til almennra raunlaunahækkanna ríkisstarfsmanna er gott sem horfið.  Launahækkanir hjá ríkinu verður að fjármagna með fækkun ríkisstarfsmanna.  Aðrar leiðir munu leiða til verðbólgu og gengisfellinga sem á endanum draga úr lífskjörum.

Þá er ljóst að verði einhver ávinningur fyrir ríkið af samningum við kröfuhafa hafa rök þeirra sem vilja nota þá fjármuni til að minnka skuldastöðu ríkisins styrkst.  Munu bestu rök ráða á endanum?  Það er stóra spurningin.

Ríkisstjórnin lifir núna á brúninni, eitt feilskref í viðbót og hún endar ofan í ruslinu.  Vonandi mun þessi staða skerpa á hugsun og ákvarðanatöku manna – ekki veitir af.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur