Föstudagur 09.08.2013 - 05:52 - Lokað fyrir ummæli

Kínverska útrásin

Íslenska útrásin náði til Kína svo það er ekki óeðlilegt að kínverska útrásin nái til Íslands.  Það ætti ekki að koma neinum á óvart.

Kínverska útrásin er hins vegar engin kjánaútrás eins og sú íslenska var.

Lykilinn að kínverskri útrás er gjaldeyrir.  Kínverjar eiga stærsta gjaldeyrisforða í heimi og hann er hornsteinn í þeirra útrás.  Í langflestum löndum er meiri eftirspurn eftir gjaldeyri en framboð og þetta ójafnvægi er dragbítur á hagvöxt og lífskjör eins og Íslendingar ættu að þekkja vel.

Kínverjar eiga því það sem flestar þjóðir þrá meir en nokkuð annað – nógan gjaldeyrir.  Það er erfitt fyrir sjórnmálamenn út um allan heim að standa í vegi fyrir kínverskum fjárfestingum sem lofa betri tíð og blóm í haga fyrir hinn almenna launamann.  Þetta vita Kínverjar og nota óspart til að koma ár sinni fyrir borð.

Og hvergi er þessi strategía auðveldari í framkvæmd en í yfirskuldugum löndum sem búa við lélegt lánstraust, lítið aðgengi að erlendum fjármálamörkuðum og gjaldeyrishöft.  Og ekki spillir fyrir þegar lönd hafna ESB aðild og evru, og eiga í stríði við sína nánustu nágranna.

Fyrir Kínverja að eiga banka í slíku landi er eins og að vera sjáandi í landi hinna blindu og kröfuhafar Íslandsbanka munu njóta þess.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur