Miðvikudagur 14.08.2013 - 12:16 - Lokað fyrir ummæli

Ljósin blikka aftur

Það hefur orðið mikil breyting á viðhorfum erlendra aðila til Íslands á síðustu 12 mánuðum.  Frá því að vera fyrirmynd annarra skuldugra ríkja eru viðvörunarljósin yfir Íslandi aftur farin að blikka og varla líður sú vika að ekki komi út skýrsla eða fréttaskýring sem dregur upp ansi dökka framtíðarsýn.

Viðbrögðin innanlands eru því miður kunnuleg.  Yfirleitt er hjólað í höfundana og reynt að gera litið úr þeim.  Óheppilegar staðreyndarvillur eru magnaðar upp og menn missa sig í smáatriðunum.  Fáír vilja sjá þá heildarmynd sem birtist þegar allt er lagt saman.

5 árum eftir hrun er efnahagsleg stefnumótun í uppnámi.  Íslendingar standa nú ráðalausir gagnvart gjaldeyrishöftunum sem flestir aðilar telja hina mestu ógn við efnahagslega framtíð þjóðarinnar.

Dæmið gengur nefnilega ekki upp með krónunni.  Til að aflétta höftunum þarf trúverðuga langtíma gjaldmiðilsstefnu.  Höftin og krónan fara alltaf saman.  Allt tal um að íslenska krónan geti staðið jafnfætis öðrum norrænum krónum er óskhyggja.

Hið svokallaða “fullveldi utan ESB” sem byggir á ónýtum gjaldmiðli verður aldrei samanburðarhæft við önnur fullvalda norræn ríki.

Spurningin er: hversu langt þurfa lífskjör á Íslandi að dragast aftur úr nágrannalöndunum þar til meirihluti landsmanna krefst þess að aðildarviðræður hefjist á ný?  Evrópulönd hafa alltaf gengið í ESB til að vernda eða auka lífskjör þegna sinna.  Einu löndin sem hafa efni á að standa fyrir utan ESB eru Noregur og Sviss.  Ísland er ekki lengur í þeim hópi og því er það aðeins spurning um tíma hvenær aðildarviðræður hefjast á ný.  Það er því rétt hjá ríkisstjórninni að tala um hlé á viðræðum.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur