Föstudagur 16.08.2013 - 07:47 - Lokað fyrir ummæli

Icesave snýr aftur

Icesave er ekki lokið.  Um 300 ma kr af Icesave peningum er skuld hjá ríkisbankanum.  Seðlabankinn telur að þessi Icesave skuld ógni fjárhagsstöðuleika og að ekki sé til gjaldeyrir til að redda málum.   Lausn  Seðlabankans er að endurfjármagna þessa skuld með sömu Icesave peningunum, þ.e. lána þá til lengri tíma og sitja upp með Icesave restar í allt að 20 ár – tær snilld!

Í Morgunblaðinu í gær er talað um að ríkisbankann vanti um 50 ma kr til að geta staðið í skilum við samning sem kröfuhafar gerðu við bankann og ríkissjóð efir hrun.

Á sama tíma gefur Kauphallarforstjórinn það í skyn að ríkið geti fengið bókfært virði bankans í sína hönd með því að setja hann á markað hjá sér?

Fróðlegt væri að vita hvort FME telur ríkisbankann í seljanlegu formi eins og stendur?

En um hvað snýst málið?

Icesave voru innistæður erlendis sem björguðu fjármögnun gamla Landsbankans fyrir hrun eins og flestir þekkja.  Það sem færri gera sér grein fyrir er að þessir fjármunir mynda enn stóran hluta af fjármögnun ríkisbankans – stærsta banka landsins.

Það felst viss kaldhæðni í því, miðað við allt sem á undan er gengið, að Ísland skuldi vera að biðla til Icesave kröfuhafa um að fjármagna ríkisbankann til lengri tíma.  Nú virðist það i höndum Icesave kröfuhafa að tryggja efnahagslegan stöðuleika á Íslandi?  Taflið hefur alveg snúist við.  Það er kannski réttara að kalla ríkisbankann Icesave banka?

Ríkisbankinn skuldar kröfuhöfum 300 ma kr í gjaldeyri í gegnum skuldabréf sem eru tryggð með 400 ma kr. af eignum bankans.  Þannig má segja að Icesave kröfuhafar eigi fyrsta veðrétt á bestu eignir bankans þ.e. útlán bankans.  Innistæðueigendur koma þar á eftir en þeir eru tryggðir í gegnum ríkissjóð, enn um sinn.

Það er því ljóst að komi til gjaldþrots ríkisbankans verður skellurinn stór á ríkissjóð, svo stór að ríkið getur ekki látið bankann falla – hann er einfaldlega of stór til að falla, eins og sagt er.

Þetta vita kröfuhafar.  Þeir eru með samning  sem ríkissjóður stóð að og því eðlilegt að krefjast þess að ríkið og bankinn standi við þann samning.  En hvar á að finna 50 ma kr. í gjaldeyri?

Ef ríkisbankinn getur ekki endurfjármagnað skuldabréf kröfuhafa á erlendum markaði og kröfuhafar neita að endursemja, þá verður ríkisbankinn að ganga á fund Seðlabankans og biðja um þrautarvarnalán í erlendum gjaldeyri líkt og Glitnir varð að gera fyrir um 5 árum.

Og hvað gerir Seðlabankinn þá?  Hann getur annað hvort reynt að reddað þessu fé úr skuldsettum gjaldeyrisvaraforða eða sagt nei og borið fyrir sig stöðuleika rökum og þar með tæknilega gjaldfellt ríkisbankann.

Þar sem það er nær óhugsandi að Seðlabankinn færi að fella ríkisbankann fyrir ekki stærri upphæð verður hann að velja þann kosta að redda þessum 50 ma kr.  Á þetta veðja kröfuhafar og eru því í sterkari stöðu en margir halda.

Hvers vegna ættu Icesave kröfuhafar að sjá um langtímafjármögnun ríkisbankans þegar Seðlabankinn hefur myndarlegan gjaldeyrisvaraforða?  Nú þegar Ísland hefur ekki áhuga  á ESB aðild er minni þrýstingur á bresk og hollensk stjórnvöld að sýna sveigjanleika og hjálpa við að aflétta gjaldeyrishöftunum með því að lengja í fjármögnuninni.

Það má svo spyrja sig hvers virði er ríkisbankinn þegar búið er að þurrausa hann af gjaldeyri og gott betur?  Þá er allt tal um að enginn vaxtakostnaður muni falli á skattgreiðendur af Icesave mikil einföldun.

Landsbankinn verður seint spennandi fjárfestingakostur fyrr en bankinn hefur losað sig við Icesave í eitt skipti fyrir öll.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur