Mánudagur 09.09.2013 - 16:15 - Lokað fyrir ummæli

Ferðaþjónustan og krónan

Því meira sem Íslendingar ánetjast ferðamennsku sem atvinnugrein því mikilvægara verður það að halda genginu og laununum lágum.  Íslensk náttúra breyttist ekki í hruninu, það sem gerði útlendingum kleyft að njóta hennar er hrun íslensku krónunnar.

Krónan er lykilinn að velgengni ferðaþjónustunnar.  Hún gerir ESB þegnum kleyft að koma hingað og gista á hótelum og borða á veitingastöðum sem Íslendingar hafa ekki efni á lengur.

Þá rýma Íslendingar í auknum mæli sínar fínustu íbúðir og sumarhús til að þéna á ferðamönnum sem margir koma frá hálaunasvæðum Evrópu.

Sú framtíðarsýn að Íslendingar verði í auknum mæli láglaunaþjónar erlendra ferðamanna mun hafa afleiðingar fyrir íslenskt samfélag.  Norrænt velferðarkerfi mun smátt og smátt líða undir lok enda er ekki hægt að reka norrænt velferðarkerfi með ferðamennsku sem drifkraft.  Leiguverð í bestu hverfum Reykjavíkur mun í auknum mæli miðast við kaupmátt útlendinga – næsta kynslóð Íslendinga verður að sætta sig við kytrur á “okurverði” í nágrannasveitarfélögunum.  Þá má loka helming af háskólum landsins, ferðamennska þarf á fáum sérfræðingum að halda.

Krónan styður frábærlega vel við þær atvinnugreinar sem náttura Íslands færir landsmönnum.  Það eina sem erlendir ferðamenn þurfa að óttast eru eldgos, nær útilokað er að íslenskir sjórnmálamenn geti klúðrað lágu gengi krónunnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur