Fimmtudagur 12.09.2013 - 10:48 - Lokað fyrir ummæli

Lágu launin

Fá lönd vaða í jafn miklum peningum og Ísland sem skila sér jafn illa til almennra launamanna.

Margt spilar hér inn í.  Slæm efnahagsstjórnun, hátt vaxtastig, gjaldeyrishöft og léleg framleiðni.  En þetta er ekki öll skýringin.

Það sem á líklega stærstan þátt í að gera Ísland að láglaunasvæði er lítil virðing fyrir fjármagni.  Allt of mikið af peningum brenna upp á báli eyðslu og bruðls og komast því ekki inn í launaumslögin.

Á Íslandi fer minnst af fjármagni í arðbærustu fjárfestingaverkefnin.  Íslenskur kjánaskapur og klíkuskapur sér til þess.  Sparisjóður Keflavíkur er ýkt dæmi um þá leið.

Besta leiðin til að hækka laun er að leyfa fjármagni að leita í arðbærustu verkefnin og takmarka bruðl og kjánaeyðslu.   Og ein besta fjárfestingin sem hægt er að ráðast í einmitt nú, þegar alvöru fjármagn er takmarkað og dýrt, er að auka framlegð í íslensku samfélagi.  Markmiðið þarf að vera að breyta Íslandi úr lágframlegðarlandi yfir í háframlegðarland.  Um leið og það gerist munu önnur fjárfestingatækifæri skapast og taxtalaun hækka.

Fyrirmyndin er þegar fyrir hendi – íslenskur sjávarútvegur er rekinn á heimsmælikvarða, þar er framlegð há og best reknu fyrirtækin eru þau fyrirtæki á Íslandi sem geta bæði borgað samkeppnishæf laun og viðunandi arð.

Þessi leið er vel þekkt og margir hafa bent á hana en hún er ekki sársaukalaus og fjöldamörg séríslensk ljón eru á veginum.  Framlegð verður ekki aukin nema að auka tímabundið atvinnuleysi og aðlögunin getur orðið erfið fyrir marga – rótgróin vinnuviðhorf þurfa að breytast, t.d. þarf að aflegga íslenskan “skreppikúltúr” – það gæti reynst erfitt.  Þá þarf að gera mun meiri kröfur til stjórnenda íslenskar fyrirtækja, þeir þurfa að öðlast meiri rekstaraþekkingu og agaðra viðhorf til notkunar fjármagns.  Og að lokum er auðvita krónan  mikill Þrándur í götu sem brenglar ákvarðanatöku og tefur framfarir enda ónýt og nýtur því lítillar virðingar.

Lykilinn að betri launum er að fara vel með alvöru peninga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur