Föstudagur 13.09.2013 - 14:57 - Lokað fyrir ummæli

Gamlar 757 og veik króna

Mikið er rætt um vöxt í ferðaþjónustunni á næstu 10 árum.  Þar tala menn um 7% eða 15% árlegan vöxt og margir eru að setja sig í gír til að taka á móti 2m ferðamönnum “fljótlega”.

Það sem fer minna fyrir er hvernig á að koma þessum ferðamönnum til landsins.  Flestir koma með flugvélum og þá flugvélum Icelandair.  En er stefna Icelandair í flugvélamálum í samræmi við þessar spár?  Varla.  Icelandair stefnir á að fara í minni vélar úr 757 niður í 737 og hefur pantað 12 slíkar sem koma í notkun 2018 og á kauprétt á öðrum 12.  Slíkur flugvélafloti mun duga skammt.

Ef flytja á 2m ferðamenn til landsins þarf að fara að fljúga að staðaldri á breiðþotum til landsins enda eru flestir flugvellir á stærstu markaðssvæðum þegar fullir og erfitt verður að fjölga lendingarleyfum.  En hver á að taka áhættu á að fjármagna og reka breiðþotur til að fljúga til Íslands?  Ef Icelandair er ekki tilbúið til að taka stökkið er vafasamt að erlend flugfélög taki þá áhættu.  Stærstu flugfélög heims hafa ekki sýnt Íslandi mikinn áhuga og fá fljúgja hingað nema yfir sumarið.  Lággjaldaflugfélögin eru mun sneggri til að þjóna litlum mörkuðum en aðeins á meðan þau sjá sér hagnaðarvon, þau hverfa jafn fljótt og aðstæður breytast.

Það er því líklegt að fjölgun ferðamanna á Íslandi verði eins og á árum áður mjög tengd stefnu og flugvélaflota Icelandair.  757 tók við af DC8 og gerði Icelandair kleyft að viðhalda sínu gamla viðskiptamódeli.  Ekki er ljóst hvaða flugvélategund taki við af 757 sem hentar í Norður-Ameríku flugið fyrir Icelandair.  Hins vegar er ljóst að Norwegian á eftir að verða skæður keppinautur með sínar nýju 787 vélar og beint flug til Osló frá mörgum sömu svæðum og Icelandair fljúga frá í Ameríku.

Vöxtur í ferðamannakomum hingað til lands byggir núna á veikri krónu og nógu framboði af gömlum 757 vélum.  Hvort þetta séu nógu traustar stoðir til að byggja á til framtíðar er vafasamt.  Eins og málin standa verður langt í að Ísland taki á móti 2m ferðamönnum á ári.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur