Miðvikudagur 02.10.2013 - 21:37 - Lokað fyrir ummæli

Stéttskipt „fyrirmyndarland“

Íslensk stéttaskipting fer í auknum mæli eftir gjaldmiðlatengingu launa.  Tvær stéttir eru að myndast – Krónuíslendingar sem fá sín laun í krónum í samræmi við íslenska kjarasamninga og Evruíslendingar sem vinna erlendis eða fá laun sín tengd erlendum gjaldmiðli.

Evruíslendingar eru að mörgu leyti forréttindahópur og margir í þeim hópi hafa þegar fengið “höfuðstólsleiðréttingu” í gegnum 20% afslátt af kaupum á íslenskum krónum fyrir gjaldeyri sem þeir þéna erlendis.  Margir í þessum hóp hafa lánstraust erlendis og geta því tekið lán í erlendum bönkum á lágum vöxtum og keypt eignir á Íslandi á afslætti sem Krónuíslendingar fá ekki. Þessir Evruíslendingar geta því keypt eignir hér á landi með “höfuðstólsleiðréttingu” og á lægri vöxtum en aðrir.  Svo leiga þeir þær út til Krónuíslendinga sem ekki hafa efni á að kaupa sér eigið húsnæði og neyðast til að borga “evrutengt” leiguverð sem miðast við kaupmátt útlendinga, sem aftur skilar sér sem frábær ávöxtun til Evruíslendinga.  Sannkallað “fyrirmyndarland!” – en fyrir hverja!

En forréttindin enda ekki þar.  Evruíslendingar hafa efni á að ferðast um eigið land, gista á fínum hótelum og borða á nýjum og spennandi veitingastöðum þar sem Krónuíslendingar þjóna þeim og geta aðeins dreymt um að leyfa sér þannig lífstíl.  Þá eru sum hverfi eins og 101 að verða frátekin fyrir Evruíslendinga og útlendinga, aðrir hafa ekki efni á að kaupa eða leigja þar.

Þegar kemur að heilbrigðismálum þurfa Evruíslendingar ekki að sætta sig við ríkisrekið fjársvelt heilbrigðiskerfi.  Þeir hafa efni á að leita sér lækninga erlendis á prívatsjúkrahúsum og sumir kaupa sér alþjóðlegar sjúkratryggingar sem tryggir þeim aðganga að erlendum læknum og sjúkrahúsum.

Þá geta Evruíslendinga hjálpað börnum sínum tll að eignast sína fyrstu íbúð.  Þau þurfa ekki að leigja á “evruverði” vegna þess að það tekur áratug fyrir Krónuíslendinga að safna fyrir útborgun á íbúðarkytru í úthverfunum.

Eins og staðan er í dag er erfitt að draga aðra ályktun en að krónan sé annars flokks gjaldmiðill í eigin landi.

Það merkilega við þetta kerfi er að meirihluti kjósenda virðast hæst ánægðir með krónuna og hennar stéttskipta fylgifisk.

Fyrirmyndarland Íslendinga er hins vegar í auknu mæli Noregur og ekki í fyrsta skiptið í 1100 ára sögu Íslands!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur