Mánudagur 14.10.2013 - 07:33 - Lokað fyrir ummæli

Vextir og höft

Mikið er talað um að létta þurfi gjaldeyrishöftum en margt bendir til, því miður, að slík aðgerð hafi fjarlægst landið á síðustu misserum.

Einn helsti vandinn er aukin áhætta og óvissa í íslensku efnahagslífi.  Innan hafta er áhættumat farið að brenglast sem getur hafi slæmar afleiðingar fyrir fjárfestingarákvarðanir og stöðu bankanna til framtíðar.

Skuldabréfamarkaðarnir sýna vel þann vanda sem við er að glíma.

Ávöxtunarkrafa utan hafta á íslensk ríkisskuldabréf á gjalddaga 2022 í dollurum hækkaði í síðasta mánuði upp í 5.7% sem jafngildir 4.2% raunvöxtum í dollurum.  Innan hafta er ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf af sömu lengd 6.3% sem gerir 2.4% raunávöxtun í krónum.  M.ö.o. fjárfestar fá mun betri ávöxtun hjá ríkinu utan hafta í gjaldeyri en innan hafta í krónum.

Það er alveg ljóst að ekki er hægt að létta höftum við þessar aðstæður.  Það þarf að loka þessum raunvaxtamun og gott betur enda breytist krónan ekki yfir í dollar á einni nóttu.

Best er að lækka svona vaxtamun með því að draga úr áhættu og óvissu í íslensku hagkerfi.  Vandamálið er að erlendir aðilar hafa efasemdir um að samningar við kröfuhafa og stöðvun ESB umsóknar verði sú töfralausn sem íslensk stjórnvöld treysta á.  Því er hætta á að erfiðara verði að vinna á þessum vaxtamun en margir gera sér vonir um.

Hin leiðin, að hækka innlenda vexti, mun snarhægja á hagvexti og verða stór skellur á heimilin og fyrirtækin og er ekki á bætandi.  Það er því fátt annað framundan en áframhaldandi höft sem líklega þarf að herða frekar en hitt.

Hvernig eiga svo innlendir aðilar að keppa við íslenska ríkið um erlent fjármagn þegar fjárfestar geta fengið um 4% raunávöxtun hjá ríkinu í gjaldeyri utan hafta?  Þá mun þessi staða ekki gera samninga Landsbankans um endurfjármögnun auðveldari eða ódýrari.

Því ætti að vera ljóst að eitt stærsta verkefni Íslands er að bæta erlend viðskiptakjör.  Slíkt verður aðeins gert með því að hlusta á erlenda fjárfesta, AGS og matsfyrirtækin.  Vonandi mun þessi staðreynd renna upp fyrir stjórnvöldum fyrr en seinna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur