Þriðjudagur 15.10.2013 - 07:27 - Lokað fyrir ummæli

Írland útskrifast

Forsætisráðherra Íra hefur tilkynnt að í desember muni alþjóðleg neyðaraðstoð við Íra hætta og Írland standa á eigin fótum á hinum alþjóðlega fjármálamarkaði.

Írar telja að þeir muni ekki þurfa á sérstakri lánalínu að halda frá AGS þegar þeir útskrifast.    Þeir benda á að NTMA, þ.e. írska lánasýslan, hafi um 25 ma evrur í reiðufé.

Írar hafa passað vel upp á að viðhalda tengslum við alþjóðlega fjárfesta og þrátt fyrir að Moody´s hafi írsk ríkisskuldabréf enn í ruslaflokki hefur vaxtaálag á írsk bréf lækkað jafnt og þétt og er nú um 100 punktum yfir bandarískum skuldabréfum.  S&P hefur hins vegar hækkað matið og eru þeir með Írland í fjárfestingaflokki með jákvæðum horfum síðan í júlí, þegar matið hækkaði.

Írar eru því á annarri leið en Íslendingar sem búa við allt að þrefalt hærra vaxtaálag í alvöru gjaldmiðli þrátt fyriri að Moody´s hafi Ísland í hærra flokki en Írland.  Hér virðast fjárfestar vera komnir á undan matsfyrirtækjunum enda segir í nýlegri frétt frá Financial Times að norrænir fjárfestingasjóðir séu farnir að kaupa írsk bréf og hlutur bandarískra hrægamma minnki ört.  Lítið fer fyrir fréttum um að norrænir frændur okkar séu að kaupa íslensk bréf!

Þessi staða Íra er enn merkilegri fyrir það að þeir björguðu bönkunum en Íslendingar ekki.  Nú gátu stjórnvöld hér auðvita ekki bjargað íslensku bönkunum en Ísland hefði samt getað lært af Írum og norrænum frændum okkar.  Írska lánasýslan keypti upp hrakeignir bankanna og setti í sérstakan sjóð sem síðan hefur hækkað mikið og er ein ástæða þess að þeir munu líklega ekki þurfa lánalínu frá AGS.  Þetta er svipuð leið og Svíar og Norðmenn fóru eftir bankakreppun á síðustu öld.

Því miður fóru Íslendingar sína eigin “sérstöku” leið þrátt fyrir ráðleggingar frá reynslumiklum frændum okkar.  Þetta varð til þess að hrægömmum voru færðar þessar eignir á silfurfati.  Nú er ljóst að Íslendingar misstu af 400-500 ma kr. tækifæri til að bæta eignastöðu ríkissjóðs og auka við gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans.

En hvers vegna keyptu Íslendingar ekki þessar eignir?  Ein skýringin er að íslenska ríkið hafið ekki bolmagn til þess, með “gjaldþrota” Seðlabanka sem hafði misst allan trúverðugleika á erlendum markaði.  Fjárfestar hefðu aldrei sætt sig við íslensk skuldabréf sem gjaldmiðil.  Hér bjargaði evran Írum og landaði þeim þeirra “svigrúmi” á þurrt landi á meðan Ísland baslar enn við að “fiffa” hlutina eftirá eftir einhverri framsóknarformúlu sem er að rústa því litla trausti sem Ísland hefur þó aflað sér á erlendum fjármálamörkuðum eftir hrun.

Hins vegar, svarar þetta ekki þeirri spurningu, hvers vegna íslenskir lífeyrissjóðir allir sem einn, stóðu á hliðarlínunni og létu kauptækifæri aldarinnar í hendur hrægömmum?  Hvers vegna stofnuðu lífeyrissjóðirnir ekki sjóð sem keypti þessar eignir?  Það er stóra spurningin?  Líklega fæst seint, viðunandi svar við henni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur