Miðvikudagur 16.10.2013 - 09:11 - Lokað fyrir ummæli

Fransk-kínverskur sæstrengur

Orkumálaráðherra Breta, Ed Davey, tilkynnti nýlega að búist væri við að fjárfestingar í nýjum kjarnorkuverum í Bretlandi myndu hlaupa á tugum milljarða punda á næstu árum.  Þetta er hærri upphæð en íslensk landsframleiðsla á einu ári.  Slík er fjárfestingaþörfin í breska orkugeiranum.  Búist er við að mest af þessari fjárfestingu komi frá Kína, Japan, Suður-Kóreu og Frakklandi.  En frönsk orkufyrirtæki eru meðal stærstu orkuseljanda í Bretlandi og trónir þar hæst EDF, sem er eitt stærsta orkufyrirtæki Evrópu með yfir 38 milljónir viðskiptavina.

Þá tilkynnti ráðherrann að breska ríkisstjórnin væri mjög nálægt því að ná samningum við EDF um byggingu á nýju kjarnorkuveri í samvinnu við Kínverja en þeir hafa sýnt breska orkugeiranum mikinn áhuga, enda telja þeir að þar liggi góð tækifæri til vaxtar og hagnaðar.

Bresk stjórnvöld eru undir mikilum þrýstingi að auka framboð af raforu og þá sérstaklega grænni orku. Það er því ljóst að gríðarleg markaðstækifæri eru til staðar í Bretlandi fyrir orku frá Íslandi um sæstreng.  Slík orka myndi seljast á hæsta verði líkt og íslenskur fiskur sem er fluttur ferskur úr landi með flugi.

Spurningin er aðeins: eru íslensk stjórnvöld til í tuskið.  Sæstrengsverkefnið er líklega af svipaðri stærðargráðu og stórt kjarnorkuver og verður aðeins unnið í alþjóðlegri samvinnu, enda hafa Íslendingar ekki aðgang að fjármagni eða sérfræðiþekkingu í svo flókið verkefni.

TIl að tryggja hámarks arðsemi af svona verkefni er nauðsynlegt að hafa sterka kjölfestufjárfesta og rekstraraðila.  Líklega yrði hagkvæmast að fá fyrirtæki á við EDF sem rekstraraðlia sem myndi leggja bæði strenginn og byggja nauðsynleg raforkuver hér á landi.  Fjármögnunin yrði alþjóðlegt samvinnuverkefni fyrir utan Ísland.  Til að tryggja sem lægstan fjármagnskostnað og þar með hámarks arðsemi til allra aðila, er nauðsynlegt að einangra svona verkefni sem mest frá lélegu lánshæfismati Íslands.

Hagnaður Íslands myndi felast í auðlindagjaldi.  Þá myndi svona verkefni skapa störf og auka hagvöxt.

En eru Íslendingar tilbúnir að opna íslenska orkumarkaðinn fyrir erlendri fjárfestingu og hleypa erlendum rekstraraðilum inn í landið?  Eru Íslendingar tilbúnir að láta Frakka byggja og reka sæstreng til Bretlands með kínversku fjármagni?  Það verður að teljast frekar ólíklegt eins og staðan er í dag.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur