Fimmtudagur 28.11.2013 - 08:19 - Lokað fyrir ummæli

Icesave í bakið

Á fimm ára afmæli hrunsins fékk íslenska þjóðin miður skemmtilega gjöf frá Icesave kröfuhöfum.  Vaxtagreiðslur vegna Icesave hækkuðu um 3.4 ma kr. í erlendum gjaldeyri.  Þetta er upphæð sem munar um og íslenska ríkið verður af, en skattgreiðendur í Hollandi og Bretlandi munu njóta góðs af á meðan íslensk stjórnvöld gefa fátt annað en boðið upp á niðurskurð.

Miðað við allt það fjaðrafok sem varð í Icesave umræðunni er svolítið furðulegt hversu litla athygli þessi afmælispakki hefur fengið.  Icesave er alls ekki búið.  Kostnaðurinn fer hækkandi og nú er talað um að lengja í Icesave um allt að 15-20 ár með tilheyrandi aukakostnaði?  Þjóðin er ekki spurð um þetta að þessu sinni.  Með snjallri markaðssetningu er búið að pakka Icesave í nýjar umbúðir og parkera hjá ríkisstofnun.  Innihaldið er jafn eitrað sem áður en umbúðirnar villa sýn.

Icesave pakkinn situr nú á efnahagsreikningi ríkisbankans og tikkar þar eins og sprengja.  Þessa sprengju þarf að aftengja sem fyrst, en ekki grafa ofaní jörð og vona að hún eyðist á 15 árum.

Icesave skuld ríkisbankans er í formi risaskulabréfa í erlendri mynt sem kröfuhafar gamla bankans eiga og er tæplega 300 ma kr.  Á fimm ára afmæli hrunsins hækkaði vaxtaálagið á þessum bréfum um 1.15% (115 punkta) sem gera um 3.4 ma kr árlega. Í stað þess að greiða ríkinu, sem er 98% eigandi bankans, sinn hluta af þessari upphæð í formi arðgreiðslu og skatta fer hún úr landi og endar að mestu leyti hjá skattgreiðendum Hollands og Bretlands, þvert á vilja íslensku þjóðarinnar í tveimur nýlegum þjóðaratkvæðisgreiðslum!  Hvað klikkaði hér?

Eitt það versta sem hægt er að gera í stöðunni er að fara að lengja í þessari Icesave hengingaról.  Við það hækkar aðeins heildar Icesave kostnaðurinn og þarf ekki annað en að líta á ávöxtunarkröfu á íslensk ríkisbréf sem gefin voru út eftir hrun í dollurum til að fá hugmynd um nýtt vaxtaálg sem kröfuhafar myndu krefjast enda á ríkisbankinn ekki í önnnur hús að venda en að biðja kröfuhafa um að bjarga sér.  Þokkaleg samningsstaða það, svo ekki sé meira sagt.  Og það sem er verra, er að með þessari leið aukast líkur á að Landsbankinn fari sömu leið og Íbúðalánasjóður og endi á spena skattgreiðenda.  Hér þarf því að stíga varlega til jarðar og horfa fram á veginn.

Gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins leyfir ekki að þessi skuldabréf séu borguð upp á samningstíma, þ.e. fyrir 2019.  Því tala menn um að lengja þurfi í bréfunum.  En er það skynsamlegt?  Ríkisbankinn starfar á samkeppnismarkaði og það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir samkeppnisstöðu hans og markaðsvirði að taka á sig svo stóra og óhagstæða skuldbindingu til langs tíma.  Með því er verið að gefa samkeppnisaðilum sóknarfæri ekki ólíkt því sem bankarnir höfðu gagnvart ÍLS fyrir hrun.  Ósveigjanleg og dýr skuldabréfaútgáfa hefur leikið fjármálafyrirtæki ríkisins grátt og það má ekki endurtaka leikinn hér.  Vítin eru til að varast þau.

Besta leiðin er að aftengja þessa Icesave sprengju á samningstímanum.  Það verður aðeins gert með eignasölu enda leyfir hvorki skuldastaða né lánshæfismat Íslands hagkvæma endurfjármögnun á erlendum mörkuðum.  Samtímis þeirri sölu þarf að endurskipuleggja ríkisbankann og marka honum nýja stefnu.  Þar gæfist t.d. tækifæri á að sameina ÍLS og Landsbankann undir einn hatt og þar með draga úr kostnaði og flækjustigi hjá ríkinu.

Vandamálið hér eru auðvita gjaldyrishöftin sem bæði tefja og auka óvissu og þar með draga úr hugsanlegu vermati eigna.  Hins vegar gæti vel lukkuð eignasala flýtt fyrir liðkun á höftum.  Það er síðan spurning hvort Íslendingar séu tilbúnir að pakka lánum sjárvarútvegsins og annarra útflutningsgreina saman og selja til erlendrar fjámálastofnunnar fyrir skuldabréf í erlendri mynt sem síðan yrði selt og peningarnir notaðir til að greiða upp Icesave í eitt skipt fyrir öll?

Markaðsaðstæður erlendis eru hagstæðar fyrir svona sölu, vextir eru enn lágir og markaðsaðilar eru opnari fyrir áhættubréfum sem bera góða ávöxtun, en þeir hafa verið um langan tíma.  Gjaldeyrishöftin segja auðvita strik í reikninginn, en einhvern tíma verða menn að þora að stíga út fyrir verndarvegg þeirra.

Með þessari leið ættu einnig að opnast möguleikar fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki að fjármagna sig á ódýrari hátt hjá erlendum aðilum, sem mun á endanum skila sér í hærri launum innanlands en minna innlendu bankakerfi.  Það verður ekki bæði haldið og sleppt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur