Föstudagur 29.11.2013 - 09:38 - Lokað fyrir ummæli

Fullveldi á brauðfótum

Á meðan ný ríkisstjórn hefur stöðvað ESB aðildarviðræður og Forsetinn sagt að ESB hafi ekki vilja til að klára viðræðurnar eru ríkisstofnanir á fullu að redda fjámálastöðugleika landsins með því að biðla til velvilja ESB þjóða.

Það er furðuleg íslensk afstaða sem felur í sér andstöðu við ESB og evru en stuðning við framtíðarstefnu sem byggir á að betla evrur og pund frá ESB löndum og righalda í ólýðræðislegan EES samning og ónýta krónu.   Þessi tvískinnungur er ansi vandræðalegur og er ekki fallinn til að auka alþjóðlegan trúverðugleika á framtíðarplani Íslands fyrir utan ESB.  Það kæmi mér ekki á óvart að menn í Brussel brosi yfir aðferðum Íslendinga og telji þær í ætt við óþekkan ungling í sælgætisbúð sem heimtar að háma í sig sælgætið en neitar að borga fyrir það.

Fjármálastöðugleiki Íslands veltur á að Icesave kröfuhafar Landsbankans samþykki lengingu í bréfum sínum.  En stærstu kröfuhafar bankans eru auðvita bresk og hollensk stjórnvöld – ESB þjóðir.  Kröfuhafar hinna bankanna eiga síðan að fjármagna skuldaniðurfellingu og ýmiss önnur verkefni stjórnvalda.

Það segir allt sem segja þarf um stöðu efnahagslegs fullveldis Íslands að ríkisstjórn sem telur það sitt fyrsta verk að stöðva ESB viðræður getur ekki fjármagnað fjármálastöðuleika landsins nema með hjálp ESB landa!  Hvar eru Rússar og Kínverjar núna eða hinar margrómuðu norðurslóðir – nóg er þeim hampað á Íslandi á tyllidögum?  Efnahagslegt fullveldi sem byggir á velvild ESB landa og sparibauk kröfuhafa er harla aumt.

Og hvað er pólitískt fullveldi án efnahagslegs fullveldis?  Þessari spurningu var oft velt upp í stjálfstæðisbaráttunni á 19. öld.  Á hún ekki jafnt við á 21. öldinni?

Við skulum vona að ESB þjóðirnar hafi vilja til að bjarga fjámálastöðugleika Íslands.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur