Laugardagur 30.11.2013 - 09:33 - Lokað fyrir ummæli

Jólasveinninn fjármagnar?

Það verður spennandi að fylgjast með kynningu á skuldaúrræðum ríkisstjórnarinnar  Sérstaklega verður fróðlegt að sjá hvernig og hver eigi að fjármagna þetta.  Í Morgunblaðinu er haft eftir formanni nefnarinnar sem vann tillögurnar að:

„Það var ekki verkefni hópsins að velta fyrir sér tekjuöflun ríkissjóðs í þessu máli. Við gáfum okkur tilteknar forsendur um fjármögnun verkefnisins, þannig að það væri þá fullfjármagnað. Það kemur aðeins ein tillaga frá hópnum. Við skoðuðum tugi sviðsmynda. Fimm voru skoðaðar alla leið,“

Hver er þá að velta fyrir sér tekjuöflun á þessu verkefni?  Á þetta bara að reddast?  Getur það virkilega verið að gefa eigi heimilunum væntingar um ákveðna upphæð í leiðréttingu áður en fjármögnunin er tryggð?

Heyrst hefur að fjármagna eigi þetta með skattlagninu á þrotabú kröfuhafa?  Þar er ekkert fast í hendi og sú leið gæti tekið mörg ár með endalausum málaferlum.  Hvaða áhrif mun sú óvissa hafa á efnahagshorfur landsins og aðganga að erlendum fjármálamörkuðum?  Varla verður gjaldeyrishöftunum lyft á meðan allt logar í málaferlum?

Þá má velta fyrir sér fordæminu sem gæti skapast við skattlagningu á þrotabú?  Hvar endar það?  Hvaða forsendur eiga lánveitendur nú að vinna eftir hvað varðar gjaldþrota áhættu á lánveitingar til Íslands og hvaða aukaálag mun fylgja í kjölfarið?  Er hér eingöngu verið að velta kostnaði á milli kynslóða?  Vonandi fást svör við þessum spurningum síðdegis.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur