Mánudagur 02.12.2013 - 08:09 - Lokað fyrir ummæli

Leiðin til Argentínu styttist

Að afnema eignaskatta af eigin eignum en leggja þá á eignir annarra hefur alltaf verið gríðarlega vinsæl aðgerð í suður-Ameríku og nú á Íslandi.  Það er engu líkara en að andi Perónista svífi yfir vötnunum heima á Íslandi.  Það er orðið prinsipp mál að fara eigin leiðir og láta ekki alþjóðlegar skammstöfunarstofnanir segja sér fyrir verkum.  Allt er hægt með sterkum leiðtoga sem lætur ekki útlendinga komast upp með múður.  Þannig hefur hrunið fjarlægt Ísland frá hefðum og venjum innan OECD og nýlegur aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar kemur skýrum skilaboðum til alþjóðasamfélagsina að Ísland sé enn að fjarlægjast OECD, að ekki sé talað um hin Norðurlöndin.

Skiljanlega eru margir ánægðir yfir að fá skuldaleiðréttingu.  Um það er ekki deilt.  Skuldaleiðrétting þekkist vel innan OECD landanna og er í mörgum tilfellum hærri en 13% af höfuðstól.  Það er aðferðafræðin sem er vandamálið.  Það að ríkisvæða almenna skuldaniðurfellingu með því að snúa út úr alþjóðavenjum er varasamt.  Aukaverkanirnar  geta orðið langvinnari, dýrari og erfiðari en margir gera sér grein fyrir.

Í fyrsta lagi kemur ríkið ekki skaðlaust út úr þessum pakka.  Jafnvel þó enginn kostnaður falli á ríkið verður efnahagsreikningur ríkisins fyrir skaða.  Markaðsvirði eignarhluta ríkisins í bönkunum mun lækka sem á endanum mun skila sér inn á rekstrarreikning.

En hvað með fyrirtækin í landinu.  Hver verða áhrifin þar?  Til að átta sig betur á þeim áhrifum þarf að rýna í orð forsætisráðherra.

Eitt að því sem forsætisráðherra notar óspart er að þeir sem stjórnuðu fjármálafyrirtækjunum fyrir hrun hafi farið óvarlega og þess vegna sé sanngjarnt að kröfuhafar borgi skaðann í gegnum skattlagningu.

Þetta er athyglisverð nálgum.  Kröfuhafar bankanna eru einstaklingar og sjóðir sem lánuðu bönkunum fé.  Þeir voru skuldabréfaeigendur en ekki hluthafar.  Þeir höfðu engan atkvæðisrétt á hluthafafundum og höfðu ekkert að segja um stefnu eða skipulag gömlu bankanna.  Ef skuldabréfaeigendur þurfa nú að búast við að verða gerðir ábyrgir fyrir falli íslenskra fyrirtækja og að kröfur þeirra verði á endanum skattlagðar og breytt í krónur innan hafta er vandasamt að sjá hver er munurinn á að vera hluthafi eða skulabréfaeigandi á Íslandi í framtíðinni.  Þetta þýðir auðvita að skuldabréfaeigendur munu krefjast hærri arðsemi.   Þeir munu skiljanlega vilja fá svipaða arðsemi og hluthafar.  Hærri arðsemiskrafa frá lánveitendum á sama tíma og skattar hækka á fjármálafyrirtæki mun hækka alla innlenda vexti.

Þannig munu fyrirtækin og þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref út á húsnæðismarkaðinn þurfa að glíma við hækkandi vaxtaálag.  Það er því  jafnauðvelt að rökstyja að hagvöctur minnki með þessum aðgerðum eins og að hann aukist.  Minnkandi hagvöxtur með hækkandi verðbólgu er svarta sviðsmyndin sem lítið er rædd vegna þess að hún hentar ekki í umræðuna.  En hún er jafn raunverulega og bjartsýnu sviðsmyndirnar.

Eitt er að hjálpa skuldugum heimilum en að gera það með því að skapa óþarfa óvissu um stöðu og forgangsröðunar fjármagnseigenda sem ekki á sér fordæmi innan OECD en er allþekkt í suður-Ameríku er annað mál.  Það getur orðið dýrt fyrir skulduga þjóð með lélegt lánstraust.  Leiðin til Argentínu kann að vera styttri en marga grunar.

Vonandi sjá menn að sér fyrr en seinna.  Best væri að ná samkomulagi við kröfuhafa áður en lög um þessa skattlagninu verða að veruleika.   Fordæmið gæti orðið dýrara en leiðréttingin.  Hér tefla menn djarft en það er að sumu leyti skiljanlegt hjá ríkisstjórn sem hefur lagt ESB möguleikann á hilluna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur