Þriðjudagur 03.12.2013 - 11:19 - Lokað fyrir ummæli

Ekki fyrir alla

Í skýrslu aðgerðahóps um skuldaaðgerðir er tillaga sem gæti breytt forsendum hjá þúsunda heimila um hvort rétt sé að sækja um þessa skuldaleiðréttingu.   En í lok skýrslunnar segir:

Í ljósi greiningarinnar telur hópurinn mikilvægt að benda á að þær aðstæður kunna að skapast að fasteignaeigendur vilji endurfjármagna lán sín hjá Íbúðalánasjóði vegna aukins veðrýmis sem myndast við skuldaniðurfellingu. Af því tilefni mætti íhuga að skilyrða aðgerðir stjórnvalda, þannig að lántakandi afsali sér rétti til þátttöku í aðgerðum stjórnvalda ef viðkomandi aðili hyggst endurfjármagna íbúðalán.”

Þarna er verið að takmarka möguleika heimilanna til að lækka greiðslubyrði.  Og í sumum tilfellum gæti verið betra fyrir fólk að afsala sér þátttöku og fara endurfjármögnunarleiðina.  Þetta getur því orðið flókið reikningsdæmi.  En er réttlátt að þeir sem endurfjármögnuðu fyrir 1. des fái leiðréttingu en þeir sem taka leiðréttingu fá ekki endurfjármögnun eftir 1. des?

Sá hópur sem þetta á líklega mest við eru ellilífeyrisþegar sem eru með lágt veðhlutfall en hátt vaxtaálag á gömlum ÍLS lánum og fá litla fjármálaráðgjöf.  Ef við notum reiknivélar bankanna er hagstæðara fyrir heimili sem er að borga af 5% ÍLS láni með 50% veðhlutfall að endurfjármagna lánið en að fara skuldaleiðréttingarleiðina.  Að vísu er hér miðað við 3.5% verðtryggt lán á breytilegum vöxtum en ÍLS vextir eru fastir.  Þetta er áhættumeiri leið en á móti kemur lægri greiðslubyrði.  Mjög mikilvægt er því að fólk fái faglegar ráðleggingar í þessum málum.

Þetta dæmi sýnir líka að auðveldlega hefði mátt ná sömu eða lægri greiðslubyrði með því að lækka vaxtaálag á lán.  Í fljótu bragði virðast sömu áhrif koma fram með lækkun á vaxtaálagi um 100 punkta (1% stig).  Ég sakna þess að skýrslan skuli ekki fara nánar út í þennan samanburð enda er lækkun vaxta hin viðurkennda alþjóðlega leið til að hjálpa skuldurum.  Hún er miklu einfaldari í útfærslu og hefur ekki þær aukaverkanir sem fjármögnun á lækkun höfðustóls í gegnum þriðja aðila með aukinni skattheimtu leiðir til.  Lækkun vaxta hefði ekki bara gagnast heimilunum heldur líka atvinnulífinu sem því miður gæti þurft að borga hluta af reikningnum hér með hækkandi almennum vöxtum í framtíðinni.  Krónan gerir hins vegar þessa leið illfæra eins og flestum ætti að vera ljóst.

Svo má spyrja sig hver greiðslubyrði af lánum heimilanna væri í dag ef ESB umsóknin hefði verið keyrð af meiri skörungsskap og Ísland hefði gengið inn í ESB á sama tíma og Króatía eins og talað var um 2009?  Það eru ákveðnar líkur á að greiðslubyrði heimilanna væri lægri nú en þessi pakki ríkisstjórnarinnar lofar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur