Miðvikudagur 04.12.2013 - 08:15 - Lokað fyrir ummæli

PISA og launin

Það er rétt hjá Þorbjörgu Vigfúsdóttur borgarfulltrúa að PISA könnunin kemur ekkert á óvart.  Lestrarvandamál drengja er vel þekkt og fer versandi.  Að bókaþjóðin skuli lenda fyrir neðan meðaltal OECD landanna í lestri er auðvita skandall sérstaklega þegar haft er í huga að kennaranám á Íslandi er 5 ár í háskóla.

Því miður má búast við svipuðum viðbrögðum og síðast þegar PISA var kynnt.  Aðilar eru áhyggjufullir í nokkra daga, kenna litlu fjármagni um og síðan fara menn á fullt í kjarabaráttuna.   Það er eins gott að laun og árangur eru ekki tengd hjá íslenskum kennurum.

Það eru litlar líkur á að hærri laun kennara eða meira fjármagn leysi vandamálið.  Gögn skýrslunnar benda ekki til þess.  Ísland eyðir stærri hluta af landsframleiðslu í grunnskólann en flest OECD lönd og fylgni á milli árangurs og launa kennara í PISA skýrslunni er mjög lítill.

Lykillinn að betri árangri má finna í austur Asíu hjá Kína, Singapúr og Suður Kóeru.  Svíar standa sig næstum eins illa og Íslendingar og þar hefur árangur fallið þrátt fyrir að Svíar hafi komið betur út úr kreppunni en flest önnur lönd.  Og svipaða sögu er að segja í Noregi þó þar skorti ekki fjármagn.  Hið mjúka grunnskólamódel Norðurlandanna er einfaldlega ekki samkeppnishæft við austur Asíu í þessum 3 greinum.

Peningar munu ekki leysa þetta vandamál. Uppstokkun á grunnskólanum er það sem þarf.  Hvort Norðurlöndin eru opin fyrir þeirri miskunnarlausu samkeppni sem ríkir í Asíu er hins vegar vafasamt og kannski ekki æskilegt.  Hins vegar ætti varla að þurfa að notast við aðferðir frá Asíu til að gera drengi sæmilega læsa á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur