Sunnudagur 08.12.2013 - 11:14 - Lokað fyrir ummæli

„Kína vill kaupa Ísland“

Þetta segir stórblaðið FT og hefur eftir vestrænum diplómat.

Í merkilegri grein um Grænland í helgarútgáfu blaðsins er rifjað upp hvernig Bandaríkin vildu kaupa Grænland eftir seinni heimstyrjöldina af Dönum.  En ekkert varð af þeirri sölu.  En í framhaldinu er bent á að Ísland sé áhugaverður kostur fyrir Kínverja til að ná fótfestu í þessum heimshluta.  Landið eigi í miklu fjárhagslegu basli og það opni möguleika fyrir Kínverja.

Þar sem greinin er um Grænland er ekki farið nánar út í þessar vangaveltur.  En engu að síður er það athyglisvert að í opnugrein um Grænland er aðeins minnst á Ísland í sambandi við áhuga Kínverja á norðurslóðum.

Það er ljóst að erlendis hafa menn áhyggur af framtíðarplani Íslands eða heldur skort á því.  Íslendingar hugsa aðeins í skammtímalausnum á meðan Kinverjar hugsa langt inn í framtíðina.  Þetta gefur Kínverjum gríðarlegt forskot..

Það sem enn styrkir stöðu Kínverja á Íslandi í framtíðinni er að fáir sýna Íslendingum áhuga og Íslendingar hafa ekki áhuga á Evrópu en sjá Kína og Rússland í hyllingum.  Þetta munu Kínverjar óspart notfæra sér.

Um þessar mundir bíða Kínverjar eftir því að Ísland hafni ESB formlega í þjóðaratkvæðisgreiðslu.  Því var hugmynd Illuga eins og samin í kínverska sendiráðinu.

Auðveldasta leiðin fyrir Kínverja til að ná áhrifum á Íslandi er þar sem landið er veikast fyrir en það er á peningamála hliðinni.  Glerperlur Kínverja verða gjaldeyrir og stuðningur við krónuna.  Kínverjar hafa engan áhuga á íslenskum stjórnmálum, það sem þeir hafa áhuga á er að ná sínum efnahagslegum markmiðum til lengri tíma.  Og þeir ná sínu fram með peningum.

Á Íslandi verða Kínverjar eins og eineygður maður í landi blindra.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur