Laugardagur 11.01.2014 - 08:39 - Lokað fyrir ummæli

Verðbólguplástrar

Enn eina ferðina á að reyna að ráðast á verðbólgudrauginn með plástrum.   Þetta var reynt alloft á síðustu öld og endaði alltaf á einn veg.  Verðbólgudraugurinn vann ætíð, enda ódrepandi með krónuna sem hjarta.

Nú reyna menn á nýrri öld og ætla að koma að draugnum sofandi þar sem hann mókir eftir 10% hækkunn krónunnar gagnvart dollara á síðasta ári.  En þó gjaldeyrishöft hefti aðgang að fóðri fyrir verðbólguna nærist hún á fleiru.  Vextir fara hækkandi og skuldug fyrirtæki þurfa peninga til að borga okurlán í íslenskum krónum.  Þá peninga sækja þau til almennings með því að hækka verð, þetta má kalla skuldaverðbólgu.  Og svo er yfirleitt stærsti hluti verðhækkana fólginn í húsnæði.  Fasteignir og leiguverð hækkar í skjóli hafta.  Þannig eru höftin tvíbennt sverð, draga úr og kynda verðbólguna á sama tíma.

Traust til stjórnmálamanna og samstaða sveipuð auglýsingaskrumi eru veikir plástrar.  Í besta falli er þetta skammtímalausn sem reddar málum fram yfir sveitarstjórnarkosningar.  Vandamálið er sem fyrr algjört vantraust á íslensku krónunni.

Það er aðeins ein langtímalausn til á þeim vanda og hún felst í nýjum alþjóðlegum gjaldmiðli.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur