Sunnudagur 02.02.2014 - 09:02 - Lokað fyrir ummæli

Undirmálslán

40 ára verðtryggð húsnæðislán eru íslensk undirmálslán.

Útfærslan á þessu lánaformi er fyrst og fremst byggð á pólitískri forskrift.

Eins og við önnur undirmálslán er hið pólitíska markmið að koma sem flestum í gegnum greiðslumat og þannig að láta drauminn um eigið húsnæði rætast fyrir sem flesta kjósendur.  Svona kerfi eru alltaf vinsæl til atkvæðaveiða en langtímakostnaðurinn er hár og lendir yfirleitt á þeim lægstlaunuðu og skattgreiðendum.

Verðtryggð lán hafa marga eiginleika kúluláns í erlendum gjaldeyri.  Vandinn við þessi lán er að greiðslubyrðin og eignamyndunin er mest í lok lánstímans, þegar flestir eru komnir á eftirlaun og hafa ekki tekjur til að ráða við lánin.   Það er í hæsta máta  óábyrgt af stjórnmálamönnum og lánastofnunum að skuldsetja fólk langt inn í ellina án þess að tryggja að lántakandinn ráði við greiðslubyrðina á þeim tíma.

Það er ekki verðtryggingin í sjálfu sér sem er vandamálið hér, heldur hvernig þessi lán eru seld.  Ef fólk ræður ekki við greiðslubyrðina af óverðtryggðu láni eru yfirgnæfani líkur að það lendi í vandræðum með verðtryggt lán fyrr en seinna.  Því þarf að setja spurningamerki við sölumennsku bankanna þegar þeir selja viðskiptavinum sem ekki komast í gegnum greiðslumat á óverðtryggðu láni verðtryggt lán.

Það sem þarf að skoða er á hvaða forsendum verðtryggð lán eru seld af fjármálastofnunum.  Margt bendir til að greiðslumat og áhættumat á þessu lánaformi sé ófullnægjandi.  Lausnin er ekki að banna heldur að bæta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur