Mánudagur 03.02.2014 - 11:46 - Lokað fyrir ummæli

Atvinnuþróun eftir hrun

Tölur Hagstofunnar um mannfjölda sýna vel þá þróun sem hefur átt sér stað eftir hrun.  Erlendir ríkisborgarar flytja til landsins en Íslendingar úr landi.

Þetta er í samræmi við þá gjá sem er á milli atvinnustefnu og menntastefnu á Íslandi.

Ísland er auðlindaland og gerir meira út á auðlindir landsins eftir hrun en fyrir, eins og vöxtur í ferðamennsku sýnir.  En auðlindaatvinnuvegir landsins þurfa frekar fáa háskólamenntaða einstaklinga.  Menntastefnan byggir hins vegar á því prinsíppi að troða öllum í gegnum háskóla.

Afleiðingin er offramboð af háskólamenntuðu fólki sem leiðir til lágra launa og lélegrar framleiðni.  Margir sætta sig ekki við þessi kjör og þeir sem geta fengið vinnu erlendis fara úr landi og aðrir fá sér vinnu sem á lítið skilt við það háskólanám sem það stundaði.  Þannig endum við uppi með skort á hæfu fólki í heilbrigðisþjónustu og tæknigreinum en of mikið af menntuðu fólki í flestum öðrum greinum.  Það er ýmist í ökkla eða eyra.

Svona misvægi er dýrt.  Ungu fólki er enginn greiði gerður með því að smala þeim öllum inn í háskóla og þegar það svo útskrifast er valið útlönd eða lág laun á Íslandi.

Ef þessi þróun heldur áfram mun íslenskt samfélag breytast mikið á næstu 50 árum.  Þetta er þróun sem er þekkt út um allan heim en er hins vegar erfitt að snúa við þegar hún er komin á skrið.  Til þess þarf skýra framtíðarsýn, sterka leiðtogahæfileika og fjárfestingar erlendis frá.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur