Þriðjudagur 11.02.2014 - 08:34 - Lokað fyrir ummæli

Höftin: Kínverska lexían

Í Kína eru gjaldeyrishöft eins og á Íslandi þó höftin í Kína séu ekki nærri eins ströng og á Íslandi.  En hvers vegna eru höft í Kína?  Kínverjar eru ekki með neina kröfuhafa snjóhengju og eiga einn stærsta gjaldeyrisvarasjóð í heimi.

Nýlega fjallaði FT einmitt um höftin í Kína og komst að þeirri niðurstöðu að ástæða þeirra er valdapólitík og skortur á trausti.  FT tók dæmi þar sem talað var við 10 kínversk ungmenni og spurt hvað þau myndu gera við sparnað ef það væru engin gjaldeyrishöft.  Öll 10 svöruðu eins.  Kaupa dollara og fjárfesta í Bandaríkjunum.  Ansi er ég hræddur um að FT fengi svipuð svör á Íslandi.

Umræðan á Íslandi snýst aðalega um fjármálastöðugleika sem er nauðsynlegt skilyrði fyrir afléttingu á höftum en er ekki nægjanlegt.  Það sem fær minni umræðu er traust og öryggi.

Það er t.d. mjög erfitt að sjá að hægt verði að aflétta höftum á meðan bankakerfið er að mestu leyti í ruslaflokki (BB einkunn) og tryggingasjóður innistæðueigenda er nær tómur og stendur í málaferlum við erlendar ríkisstjórnir.  Margir munu vilja geyma sinn sparnað hjá bönkum í fjárfestingaflokki með A einkunn og tryggingakerfi sem er í stakk búið að taka á áföllum.

Nú munu sumir segja að þetta skipti ekki máli þar sem ríkið tryggir allar innistæður.  En er svo?  Þó það heiti í orði að allar krónur séu tryggðar er ljóst að það á ekki við í raun.  Kröfuhafar munu þurfa að gefa eftir af sinni krónueign sem þýðir auðvita að þeirra krónur voru ekki að fullu tryggðar í hruninu  Þá er spurningunni um hversu lengi ríkið “tryggir” innistæður ósvarað.  Allt þetta skapar óvissu sem er eitur í beinum fjárfesta og sparifjáreigenda.

Eins og í Kína verður það traust, öryggi og valdapólitík sem á endanum mun ráða mestu um framtíð hafta á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur