Föstudagur 11.04.2014 - 06:54 - Lokað fyrir ummæli

Er hætta á innflutningshöftum?

Þegar þjóðir gera sér grein fyrir að þær eiga ekki fyrir samningsbundnum afborgunum í gjaldeyri og þær geta ekki treyst á eðlilegan aðgang að erlendum fjármálamörkuðum þá byrja þær yfirleitt strax á að takmarka allan innflutning á lúxusvarningi. En ekki á Íslandi í dag!

Það sem vekur athygli í nýrri skýrslu Seðlabankans um greiðslujafnaðarvanda þjóðarinnar er að þar virðist forðast að reifa alla valmöguleika sem fela í sér sparnað á gjaldeyri. Á Íslandi er sparnaður ekki hátt skrifaður, allt gengur út á að fá meiri og meiri lán, lengja í lánum og komast yfir eignir annarra á spottprís. En er það skynsamleg og raunhæf forsenda að hér verði hægt að keyra upp hagvöxt með síaukinni einkaneyslu sem byggir á “niðurgreiddum” gjaldeyri? Jafnvel þó hægt verði að komast yfir allar eignir kröfuhafa. Á einhverjum tímapunkti munu þeir peningar tæmast og hvað þá?

Halda menn virkilega að erlendir fjárfestar muni standa í biðröð til að skipta evrum í krónur með slíka framtiðarsýn? Er einfaldlega hægt að loka augunum fyrir óheftri neyslu innlendra aðila á gjaldeyrisvarningi? Hver á þá að bera ábyrgð á fjármálastöðuleika landsins þegar kröfuhafar verða farnir fyrir fullt og allt?

Það verður að segjast að það er þungur undirtónn í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðuleika. Vissulega lítur rekstrareikningur samfélagsins þokkalega út, það er rífandi gangur í ferðaþjónustu og byggingastarfsemi, laun eru hins vegar lág og framlegð léleg en á móti kemur að atvinnuleysi er lítið. Vandamálin eru hins vegar alvarlegust á efnahagsreikningi þjóðarinnar. Þar eru eignir í höndum útlendinga en skuldirnar á herðum Íslendinga og ekkert alvöru fé í hendi til að geta keypt eignir útlendinga á eðlilegu markaðsverði.

Því miður bendir margt í þessari skýrslu til að þjóðarbúið standi á þverhnípi. Ef allt fer á besta veg eru góðar líkur á að Ísland sleppi fyrir horn og nái að endurskipulegga efnahagsreikning sinn í sátt og samkomulagi við alla aðila. Hins vegar eru töluverðar líkur á að þetta klúðrist og þá verða innflutningshöft og gengisfelling ekki langt undan. Í sinni ofurbjartsýni einblína menn alltaf á afléttingu hafta og hvernær sá dagur rennur upp, en gleyma að líkurnar á innflutningshöftum eru líklega litlu minni og fólk ætti því líka að undirbúa sig fyrir þann dag!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur