Fimmtudagur 17.04.2014 - 09:05 - Lokað fyrir ummæli

Ríkisfyrirtæki til Noregs?

Í Morgunblaðinu í dag er athyglisverð grein um fyrirtækið Promens sem er í 62% eigu skattgreiðenda í gegnum eignarhald ríkisins á Landsbankanum. Þetta fyrirtæki sem ríkið ræður yfir er að hugsa um að skrá hlutafé sitt erlendis, líklega í Noregi, til að geta stutt við framtíðarvöxt á erlendum mörkuðum. Þetta er mjög eðlileg viðskiptaákvörðun en engu að síður vandræðaleg fyrir ríkisstjórnina.

Ef fyrirtæki í meirihlutaeign ríkisins hefur ekki meiri trú á peningamálastefnu landsins en svo að það telji sig þurfa að flytja úr landi er varla von að aðrir innlendir aðilar hvað þá erlendir aðilar telji að rekstrargrundvöllur hér á landi sé viðunandi fyrir alþjóðleg fyrirtæki.

En þetta litla dæmi sýnir líka vel hversu ónýt krónan er. Enginn getur notað krónur erlendis og því er skráning í krónum verðlaus erlendis. Þá er það einnig í hag Landsbankans að fá alvöru gjaldeyri fyrir þessa eign sem bankinn getur notað til að borga niður stóra skuldabréfið sem ógnar fjármálastöðuleika landsins. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins gæti eignarhlutur skattgreiðenda numið allt að 37 ma kr. við sölu. Það verður spennandi að sjá hvernig þessum fjármunum verður á endanum varið?

Það er nokkuð ljóst að stór hluti atvinnulífsins hefur enga trú á að gjaldeyrishöftunum verði létt í náinni framtíð. Jafnvel menn sem standa ríkisstjórninni næst.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur