Föstudagur 25.04.2014 - 08:22 - Lokað fyrir ummæli

Glöggt er gests augað

Það er varla hægt annað en að vera sammála Huang Nubo þegar hann segist hafa áhyggjur af reynsluleysi íslenskra ráðamanna.

Hafi menn efast um þessi orð Nubos þurfu þeir hinir sömu ekki að bíða nema í nokkra daga til að fá staðfestingu á þeim. Vinnubrögðin í kringum framboðslista flokks forsætisráðherra í höfuðborginni fyrir sveitarstjórnarkosningar í maí tala sínu máli og ættu að vekja menn til umhugsunar.

Það sem fylgir oft reysluleysi er hik og ákvörðunarfælni. Frestur er á illu bestur verður allt í einu mottóið. Þetta sést vel í stærstu málum þjóðarinnar, ESB umsókninni og gjaldeyrishöftunum.

Nú er stefna ríkisstjórnarinnar alveg skýr í ESB málinu, stjórnin hefur rúman þingmeirihluta og nýtur blessunar bæði forseta Íslands og Morgunblaðsins. Þá er málið einfalt, hægt að afgreiða fyrir hádegi á virkum degi. En þrátt fyrir þessa yfirburði, hikar stjórnin. Það er eins og hún sé hætt að trúa eigin framtíðarsýn.

Gjaldeyrishöftin eru annars eðlis, þar er málið sérlega flókið enda er það ekki einkamál Íslendinga ef þeir vilja að krónan sé á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði. Þar þarf að vinna með útlendingum, en hvernig á það að vera hægt þegar menn geta varla unnið að sæmilegri lausn mála með eigin flokksmönnum? Lítið hefur þokast í þessu mikilvæga máli síðustu 5 árin. Þegar menn rekur í stans er skipuð ný nefnd, svo er hún stækkuð og svo bíðan menn eftir skýrslum. Þannig líða árin og líklega áratugirnir. Menn eru alltaf að bíða og sjá enda áhættusamt að afnema höftin.

En þessi stóru mál eru tengd, nokkuð sem margir eru loksins farnir að gera sér grein fyrir. Ef við lítum á áhættuna sem fylgir þessum málum kemur í ljós að áhættan er hámörkuð með því að byrja á að hætta við ESB umsóknina og svo fara að aflétta höftunum. Enn eitt dæmið um að menn hugsa ekki málin til enda.

Því miður eiga áhyggjur Nubos við rök að styðjast.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur