Fimmtudagur 14.08.2014 - 13:59 - Lokað fyrir ummæli

„Allt of áhættusamir“ bankar?

Þegar stjórnmálamenn segja að það sé “allt of áhættusamt” fyrir skattgreiðendur að innleiða tilskipun ESB um innistæðutryggingu þá hlýtur það að vera jafn áhættusamt fyrir sparifjáreigendur að geyma fé sitt í íslenska bankakerfinu?  Þegar litið er til þess að bankakerfið í dag er að stærstum hluta fjármagnað með kvikum innlánum er svona yfirlýsing ekki traustvekjandi og veltur upp mikilvægum spurningum um stefnu stjórnvalda í afnámi hafta.

Það er grunnskilyrði í afnámi hafta að bankar á Íslandi séu samkeppnishæfir á EES markaði. Í ljósi sögunnar er öryggið stærsti þátturinn. Ef íslensku bankarnir eru einu bankarnir innan EES sem ekki veita sömu neytendavernd á fjármálamarkaði og aðrir bankar þá gefur það auga leið að margir munu vilja koma sparnaði sínum í öruggari höfn.  Hér er því verið að búa til nýja og stærri snjóhengju.

Því virðast stjórnvöld vera að vinna gegn markmiði sínu um afnám hafta með svona yfirlýsingum. Það verður ekki bæði haldið og sleppt.

Hin hliðin á málinu snýr svo að markaðsverði íslensku bankanna.  Ef rýra á samkeppnisstöðu íslensku bankanna mun verðmiðinn falla og fáir fagfjárfestar munu hafa áhuga að koma nálægt slíkum stofnunum hvorki sem eigendur né lánveitendur.

Eitt er víst að það verður sífellt erfiðara og dýrara fyrir lítil lönd að halda úti eigin mynt og bankakerfi.  Samstarf við önnur lönd verður til lengri tíma ekki umflúið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur