Miðvikudagur 20.08.2014 - 08:07 - Lokað fyrir ummæli

Vextir hækka

Fjármagnseigendur hafa fengið 100% raunhækkun á síðastliðnum 12 mánuðum.  Geri aðrir betur.

Þetta kemur fram í nýjustu útgáfu af markaðsupplýsingum frá Lánamálum ríkisins.  Ávöxtunarkrafa á meðallöng verðtryggð ríkisbréf hefur tvöfaldast frá ágúst 2013 úr 1.6% yfir í 3.2% í dag.  Og ávöxtunarkrafan á óverðtryggð bréf er enn hærri.  Í raun hefur allur vaxtaferillinn hliðrast upp á þessu ári.  Þetta gerist á sama tima og Seðlabankinn heldur „stýrivöxtum“ stöðugum.  Hver heldur þá um stýrið?

Í alvöru hagkerfum myndi svona mikil og skörp hliðrun hafa mjög dempandi áhrif á hagkerfið og þá sérstaklega á áhættusamar fjárfestingar, en erfiðara er að átta sig á hugsanlegum áhrifunum hér innan gjaldeyrishafta, þar sem áhættumat er orðið ansi bjagað. T.d. virðist þessi hækkun á ávöxtunarkröfu, enn sem komið er, hafa haft lítil áhrif á verðlagningu bankanna.  Ódýrustu húsnæðislánin eru enn á 3.5% verðtryggðum vöxtum og óverðtryggðir útláns- og innlánsvextir hafa lítið breyst.  Eitt er þó víst, það verður erfitt að auka hagnað bankanna í svona umhverfi og spennandi verður að sjá hálfsársuppgjör þeirra og þá sérstaklega niðurstöður úr reglulegum rekstri.

Þá ættu þessar sveiflur að fá menn til umhugsunar um hversu skynsamlegt það er að taka upp danska húsnæðislánakerfið.  Í slíku kerfi eru lántakendur berskjaldaðir fyrir svona vaxtasveiflum.  Hætt er við að húsnæðislánakjör verði eitt lotterí þar sem væntingar og hegðun fjárfesta ráði öllu.

Þessi mikla raunhækkun á ávöxtunarkröfu eru auðvita slæmar fréttir fyrir alla sem skulda og eru ekki með langtíma fjármögnun á föstum vöxtum.  Vaxtakostnaður á eftir að hækka hjá mörgum sem á endanum mun éta upp launahækkanir og skuldaniðurfellingar.  Þá þarf ríkissjóður að endurfjármagna stór lán 2015 og 2016.  Fórnarkostnaður ríkisins af skuldaniðurfellingunni hefur hækkað mikið á þessu ári, betra hefði verið að nota peningana til að greiða niður lán sem nú þarf að endurfjármagna á hærri vöxtum.

Mun þessi hliðrun ganga til baka?  Varla, ef ríkisstjórnin ætlar að aflétta höftunum.  Háir vextir er eina leiðin til að fá fjármagnseigendur til að halda í krónuna.  Og hér er munurinn þegar orðinn mikill.  Fjárfestar heimta 4.8% raunvexti til að halda á 10 ára óverðtryggðum ríkisbréfum í krónum en láta sér nægja 0.6% raunvexti til að halda á 10 ára þýskum ríkisbréfum.  Jafnvel á Írlandi sem fyrir stuttu síðan var með lánshæfismat í ruslaflokki, en hefur nú siglt fram úr Íslandi yfir í A flokk, er hliðstæð ávöxtunarkrafan rétt um 1.6% á 10 ára ríkisbréf.

Já, krónan er „verðmætur“ gjaldmiðill, en aðeins fyrir þá sem ekkert skulda.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur