Þriðjudagur 26.08.2014 - 08:02 - Lokað fyrir ummæli

Bankabruðl

Það var kostulegt að fylgjast með hálfsársuppgjöri ríkisbankans sem allir virðast bara vera mjög sáttir við. Aðeins um helmingur tekna Landsbankans virðist koma frá viðskiptavinum. Hinn helmingurinn kemur frá virðisbreytingum, sölu eigna og verðbréfum. Það er nú alveg á mörkunum hvort hægt sé að kalla Landsbankann venjulegan viðskiptabanka með svona lágt hlutfall af traustum reglulegum tekjum. Sem dæmi má nefna að hjá Svenska Handelsbanken, sem Bankasýslan tekur sem norræna fyrirmynd af traustum viðskiptabanka í nýlegri ársskýrslu, er þetta hlutfall yfir 90%.

Þá var athyglisvert að sjá hversu stoltur Landsbankinn var yfir því að lenda í 1. sæti í fjármagnsstyrk í vestur-Evrópu. Það er ekki amaleg staða, en það hefði nú mátt minnast á hvað þetta 1. sæti kostar skattgreiðendur. Það er enginn smápeningur. Heilar 7,000,000,000 kr. á ári, sem bankinn færir sér til tekna. Það gæti nú einhver spurt hvort þessum peningum væri ekki betur varið í heilbrigðiskerfinu eða menntakerfinu. Er virkilega nauðsynlegt að skera endalaust niður í grunnstoðum velferðarkerfisins til þess að reka banka innan gjaldeyrishafta sem hefur eiginfjárstyrk sem önnur lönd láta sig dreyma um? Er þetta rétt forgangsröðun?

Nú munu sumir segja á móti, að ríkið fái þetta tilbaka í arðgreiðslum frá bankanum. Og vissulega fær ríkið hluta tilbaka sem arðgreiðslur, en þær eru ekki öruggar og eru á valdi stjórnar bankans. Vextir af skuldabréfum ríkisins sem bankanum voru færð sem stofnfjármagn og SpKef björgun (um 140 ma kr.) bera samningsvexti (5% í dag) og bréfin eru ríkistryggð. Þá er það hálfkómískt að þegar ríkið fær peningana sína “tilbaka” sem arðgreiðslu fá nær allir starfsmenn bankans “sína þóknun” í gegnum hlutabréf sem þeir fengu “gefins”.  Ætli það sé mikill hvati innan bankans til að leggja svona kerfi af?

Að lokum er vert að minnast á lið í uppgörinu sem glöggir lesendur hafa eflaust hnotið um og það er fjárfesting bankans í fasteignum og tækjabúnaði. Landsbankinn bókfærir 1,170,000,000 kr. á fyrstu 6 mánuðum ársins undir þessum lið og er hér væntanleg verið að færa til bókar kaup bankans á einni dýrustu lóð landsins undir nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar. Það er nú frekar undarlegt að svona stór fjárfesting sé ekki kynnt hluthöfum formlega. En yfirstjórn bankans virðist eitthvað feimin í þessu máli. Það er kannski skiljanlegt enda hálfvandræðalegt að vera á spena skattgreiðenda og nota svo peningana til að spreða á lúxuslóð á meðan ekki er til króna í nýjan spítala. Það eru nú ekki margar ríkisstofnanir sem geta leyft sér svona fjárfestingu án þess að stjórnmálamenn fetti fingur út í. En það er nú heldur ekki sama Jón og séra Jón innan ríkisapparatsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur