Föstudagur 28.11.2014 - 08:36 - Lokað fyrir ummæli

Stefna eða stefnuleysi?

Á nýlegri ráðstefnu sem Financial Times hélt um bankamál kom fram að fjárfestar líta bankastarfsemi öðrum augum í dag en fyrir hrun.  Verðlagning á bönkum stjórnast nú meir af gæðum tekna en, arðsemi sem byggir á einskiptisliðum og verðbréfastússi. Sérhæfðir bankar standa öðru jöfnu betur en alhliða bankar (e. universal banks) og sérstaklega standa norrænir viðskiptabankar sig vel.  Þá kom fram að alhliða bankar með kostnaðarhlutfall yfir 50% séu stofnanir á rangri hillu!

Hvers vegna skiptir þetta máli.  Jú, vegna þess að ríkið ætlar að selja hlut í Landsbankanum til að borga til baka peninga sem það tók að láni við björgun bankans eftir hrun.  Mikilvægt er að ríkið fái tilbaka a.m.k sömu upphæð og látin var inn, en það er því miður mjög tvísýnt.  Ástæður fyrir því eru margar, þar má nefna að stóra skuldabréfið er dýrt og ófrágengið, kostnaður er of hár, tekjur of óreglulegar, lagaleg óvissa umlykur lánabók bankans og skattar eru háir.  Þá er spurning hversu margir vilja vera “áhrifalausir” minnihlutaeigendur með ríkisvaldinu?

Allir þessir þættir ýta verðinu niður.  Yfirstjórn bankans getur haft áhrif á suma þætti en aðra ekki.  Þeir þættir sem eru á valdi bankans og skipta mestu máli eru gæði tekna og kostnaðurinn.  En því miður gerast hlutirnir afar hægt hér, sem þýðir að hagræðingartækifærin verða líklega seld á útsöluverði til nýrra eigenda.  Þar með verður ríkið af peningum sem það sárvantar.

Þá vekja nýlegar ákvarðanir bankans upp áleitnar spurningar um stefnu bankans og hversu vel hún aðlagast stefnu ríkisins um hámörkun söluverðs.

Í byrjun árs keypti bankinn eina dýrustu lóð landsins, fyrir um 1 ma kr, undir nýjar aðalstöðvar.  Þetta samræmist ekki stefnu um kostnaðaraðhald.  Þá hefur bankinn upplýst að hann hafi ráðið einhverja dýrustu ráðgjafa í stefnumótun, McKinsey, til að hagræða hjá sér.  Þetta er auðvitað bruðl, yfirstjórn bankans eru borguð laun til að reka bankann sómasamlega.

Þegar kemur að gæðum tekna rekur Landsbankinn lestina af íslenskum bönkum.  Ein ástæða þess er skortu á skýrri stefnu í greiðslukortastarfsemi.  Hinir bankarnir hafa góðar og reglulegar tekjur að greiðslukortum, Arion banki í gegnum Valitor og Íslandsbanki í gegnum Kreditkort og Borgun.  Það vakti því svolitla undrun þegar ríkisbankinn sendi frá sér fréttatilkynningu um að hlutur hans í Borgun hafi verið seldur vegna áhrifaleysis.  Er þá rökrétt að álykta sem svo að 38% hlutur Landsbankans í Valitor sé líka í lokuðu söluferli?

Hvar endar ríkisbankinn með greiðslukortastarfsemi sína, ef allt er selt?  Það verður að teljast undarlegt að selja lykileignir án þess að tilkynna á sama tíma um nýja og öfluga greiðslukortastefnu.  Það verður að gera meiri kröfur til yfirstjórnar ríkisbankans en að hún láti berast fyrir vindi áhrifaleysis eða láti stjórnast af fólki sem bankar upp á og vill kaupa eignir í prívat sölu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur