Sunnudagur 07.12.2014 - 21:17 - Lokað fyrir ummæli

Að tapa Valitor og Borgun

“To lose one parent, Mr. Worthing, may be regarded as a misfortune.  To lose both looks like carelessness. “

Þessi orð úr leikritinu “The Importance of Being Earnest” eftir Oscar Wilde, koma upp í hugann þegar maður les tilkynningar Landsbankans um að hann sé búinn að missa bæði hlut sinn í Borgun og Valitor!

Að selja hluti bankans í báðum þessum strategísku fyrirtækjum á sama tíma á útsöluverði í lokuðu ferli á eigin vegum er vægast sagt óvarkárt.

Útskýringar bankastjóra Landsbankans eru athyglisverðar.  Hann ber fyrir sig myrkri og áhrifaleysi eða felur sig á bak við samkeppnisyfirvöld.  Ekki er talað um að þessar sölur falli að stefnu bankans, bæti þjónustu, lækki kostnað og auki arðsemi eigenda.  Nei, all snýst um dílinn, sem bankastjórinn heldur að sé góður og að með honum komi stundarhagnaður sem reddi ársuppgjöri og auki arðgreiðslumöguleika á næsta ári.  En hvað svo?

Hver er stefna ríkisbankans?  Bankastjórinn lét hafa eftir sé að samkvæmt samkeppnisyfirvöldum væri æskilegt að hver banki eigi sitt greiðslukortafyrirtæki, ef ég skildi hann rétt?  Ef þetta verður stefna bankans þýðir það aðeins auknar álögur á viðskiptavini bankanna.  Í staðinn fyrir að auka hagræðingu í bankakerfinu mun það blása út.  Og hvernig á svona hugmynd að ganga upp?  Kreditkorta vörumerkin á alþjóðavísu (Visa og MasterCard) eru aðeins tvö en íslensku bankarnir eru þrír?

En aftur að sölunni.  Hvers vegna var ferlið lokað?  Og fengu eigendur Landsbankans hámarksverð fyrir hlutina?  Þessu er erfitt að svara, en þegar báðir hlutir eru seldir á sama tíma án þekktrar stefnu seljanda kemur upp staða sem eru ákveðnum kaupendum í vil.  Það er vegna þess að aðeins innanbúðarmenn í Valitor og Borgun þekkja nákvæmlega viðskipti seljandans við kaupandann.  Lykilinn að verðmatinu er hvað verður um framtíðargreiðsluflæði af kortaviðskiptum Landsbankans.  Hvert fara þau?  Þetta eru upplýsingar sem skipta máli og í opnu söluferli hefði Landsbankinn þurft að opna bækur sínar um þessi viðskipti og marka skýra framtíðarstefnu í kortamálum.  Af einhverjum ástæðum fer bankinn ekki þessa leið.

Það er alveg ljóst að Landsbankinn verður að halda áfram að gefa út Visa og/eða MasterCard kort og mun því áfram eiga í viðskiptum við Valitor og/eða Borgun.  Spurningin er í hvaða hlutföllum verða þessi viðskipti?  Án þess að vita það er erfitt að leggja mat á söluverðið.  Hins vegar er ljóst að ef bankinn selur bæði Borgun og Valitor án stefnu og langtímasamninga við annað eða bæði fyrirtækin verður söluverðið alltaf “of lágt”.

Spurningin er hafa kaupendur notfært sér stefnuleysi ríkisbankans eða er verið að selja í lokuðu ferli til að þurfa ekki að opinbera kortastefnu Landsbankans og innihald langtímaviðskiptasamninga á milli seljanda og kaupanda?  Ef svo er þá vakna upp spurningar um hvort ríkisbankanum hafi verið boðinn “afsláttur” af kortaviðskiptum á móti “hagstæðu” söluverði?  Bankinn er jú undir pressu að lækka kostnað.

Það er full ástæða fyrir eigendur Landsbankans að hafa áhyggur af þessum sölum á meðan upplýsingaflæðið er af svona skornum skammti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur