Sunnudagur 14.12.2014 - 11:12 - Lokað fyrir ummæli

Hrópandi leiðtogaleysi

Það sem hrjáir íslensku þjóðina mest er leiðtogaleysi.  Hóphugsandi klíkur geta eðli síns vegna ekki skilað samfélaginu hæfum leiðtogum.  Ekkert hræðir meir en hæfir og óhefðbundnir leiðtogar með nýjar og ögrandi hugmyndir.  Mannkynssagan er full af slíkum dæmum.

Í dag stendur Ísland frammi fyrir þremur stórum verkefnum sem eru stjórnmálastéttinni og leiðtogum hennar ofviða.  Þetta er búið að vera mörgum ljóst í langan tíma enda eru um 30 ár liðin síðan danska embættismannakerfið, sem Ísland bjó við mestan hluta 20. aldarinnar, fór að riðlast og með því grunurinn að norrænu velferðarsamfélagi.  Bankahrunið var flugeldasýningin sem kynnti þessa stefnubreytingu, eða heldur stefnuleysi fyrir umheiminum.

Það sem ruglar menn oft í ríminu er að búðargluggi Íslands er flottur.  Hér er full atvinna, mesti hagvöxtur í Evrópu (þó með smá uppákomu nýlega sem Seðlabankinn “kennir“ Hagstofunni um!), fullt af endurnýjanlegri orku og landið er fallegt.  En þegar kíkt er á bak við búðarborðið kemur annað í ljós. Innviðir landsins eru ekki í samræmi við lúkkið.  Launin eru lág, vextir háir, heilbrigðiskerfið að hruni komið, menntakerfið dýrt og óskilvirkt og svo er landið yfirskuldugt með ónýtan froðugjaldmiðil. En, hei þetta reddast – hugsunarhátturinn, er alls ráðandi sem fyrr.

En aftur að verkefnunum þremur. Þau eru heilbrigðiskerfið, menntakerfið og peningakerfið.

Í fyrsta forgangi er peningakerfið og þar hafa menn ráðið dýra og hæfa erlenda sérfræðinga til að reyna að púkka upp á krónuna.  Enda hafa þessir útlendingar sagt að áætlun um afnám hafta verði ekki tilbúin fyrr en 2015.  Þetta er nokkur annar tónn en hefur heyrst frá leiðtogum landsins sem árlega, ef ekki oft á ári, segja að höftin séu að hverfa eftir nokkra mánuði.

Á eftir peningum kemur heilsa og menntun.  Þar eru mál ekki í eins góðum farvegi enda halda innlendir aðilar, sem eru bundnir á klafa klíkusamfélagsins, þar á spöðum.  Þar birtast engar hæfar lausnir við þeim risavandamálum sem þessir málaflokkar standa frammi fyrir.  Það er eins og menn haldi að tíminn vinni með þeim og að nóg sé að koma með yfirlýsingar í fjölmiðla.  Leiðtogaleysið hér er hrópandi.  Það er nokkuð ljóst að þessi verkefni verða ekki kláruð á tímanlegan og hagstæðan hátt nema að fara svipaða leið og í haftaverkefninu.  Menn verða að setja svona flókin verkefni í hendur fagmanna erlendis frá.

Þessi sorgarstaða veltur auðvitað upp þeirri spurningu hversu vel í stakk búið litla klíkusamfélagið er að ráða sér sjálft á 21. öldinni?  Geta 320,000 sálir rekið fyrsta flokks eigið og sjálfstætt peningakerfi, heilbrigðiskerfi og menntakerfi án aðkomu og hjálpar erlendis frá?  Slíkt er freistandi draumur sem selst vel í samblandi við þjóðernisrembu og lýðskrum, en er engu að síður algjörlega absúrd og mun engu skila nema einhæfu og fátæku samfélagi þegar upp verður staðið.

Hrun heilbrigðiskerfisins er sú viðvörunarbjalla sem menn þurfa að hlusta á og bregðast við, en ekki reglubók klíkusamfélagsins sem bindur hendur þjóðarinnar á bak aftur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur