Föstudagur 09.01.2015 - 18:26 - Lokað fyrir ummæli

Óþekktur EES verðmiði

Nú á að reyna að draga ESB umsóknina tilbaka eina ferðina enn.  En hvað kostar það?

Það verður ekki ókeypis að segja NEI við ESB en JÁ við EES.

Ríkisstjórnin segir að EES eigi að vera langtímagrunnur að utanríkisstefnu Íslands.  En EES samningurinn var aldrei hugsaður sem langtíma launs fyrir Evrópuríki.  Hann er í besta falli biðleikur áður en til fullrar aðildar kemur.  Það var varla hugsunin hjá ESB að lönd gætu sagt nei við fullri aðild en kosið þess í stað aukaaðild þar sem hægt væri að velja bestu ESB bitana.  Sú staða er vandræðaleg fyrir ESB og getur gefið andstæðingum ESB byr undir báða vængi um alla álfu.  Slíkt verður varla látið afskiptalaust í Brussel.

EES er nefnilega vandamál sem ESB þarf að leysa og það fyrr en seinna.  Dragi Ísland aðildarumsóknina tilbaka er hætt við að það verði túlkað sem svo að EES samningurinn sé of hagstæður fyrir löndin sem standa fyrir utan ESB.  Nauðsynlegt sé að búa svo um hnútana að full aðild verði alltaf mun hagstæðari fyrir Evrópuríki en aukaaðild í gegnum EES eða tvíhliða samningar.  Lönd sem vilja njóta þess besta sem ESB bíður upp á, en ekki taka þátt í samstarfinu sem fullir meðlimir, þurfi að borga vel fyrir þau forréttindi.  Og afturköllun Íslands sé sönnun þess að verðmiðinn á EES sé of lágur.

Á sama tíma veikist samningsstaða Íslands gagvart ESB þegar menn vilja ekki aðild en hanga á EES eins og hundur á roði.  Það er því viðbúið að Ísland þurfi að borga dágóðar summur fyrir EES í framtíðinni og að þær fari stighækkandi.

Spurningin er því hvað eru menn tilbúnir að borga mikið yfirverð fyrir EES?  Þetta eru peningar sem ekki verða notaðir í annað, t.d. heilbrigðismál eða menntamál.  Þetta er gjaldeyrir sem Íslendingar þurfa að afla en renna beint í sameiginlega sjóði ESB.

“NEI ESB – JÁ EES” er ósjálfbær lúxus sem Norðmenn hafa eða höfðu kannski efni á.  En að skuldugt smáríki sem, t.d. getur ekki rekið heilbrigðiskerfi skammlaust, skuli ætla að æða út í slíkt og það án þess að kynna sér endanlegan kostnað er fífldirfska.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur