Sunnudagur 12.04.2015 - 06:50 - Lokað fyrir ummæli

“Speak softly and carry a big stick”

Þessi orð, sem tileinkuð eru Teddy Roosevelt, komu upp í hugann eftir digurbarkalegar yfirlýsingar forsætisráðherra um losun fjármagnshafta.

Engum forsætisráðherra í nágrannalöndunum dytti í hug að tala svona. Þar er hefð fyrir því að sjálfstæðir og sterkir seðlabankastjórar stjórni peningamálastefnunni. Hlutverkaskipunin í afnámsferlinu er óljós og það dregur úr trausti.

Það er lágmarkskrafa að ráðamenn standi að kynningu á afnámi hafta á faglegan hátt á hlutlausum vettvangi þar sem menn sýna breiða samstöðu ríkisstjórnar og Seðlabankans. Fjarvera fjármálaráðherra og seðlabankastjóra grafa undan öllu ferlinu og torvelda afnámið.

Þetta vekur hins vegar upp þá spurningu hvort afnám hafta sé hið raunverulega pólitíska markmið? “Losun hafta” til ákveðinna vildarvina í kerfi þar sem stjórnmálmenn geta stýrt aðgangi að gjaldeyri í gegnum skattlagninu er miklu nær því að vera hin “séríslenska leið”. Þar með er auðvelt fyrir stjórnmálastéttina að stýra verðinu á krónunni, en sú verðlagning er sú mikilvægasta í hagkerfinu.

Og þar er komið að stóru vandamáli í íslensku samfélagi. Menn eru svo vanir handstýrðri verðlagning og öllu sem henni fylgir. Hugtökin framboð og eftirspurn eru ekki hátt skrifuð á Íslandi og þarf ekki annað en að líta á menntamál, heilbrigðismál, kjaramál og samgöngumál til að sjá að yfirleitt velja menn handstýrðar leiðir undir forsjá stjórnmálamanna.

Þannig falla fjármagnshöft vel að íslenskum veruleika. Fáir eru tilbúnir til að láta óheft öfl markaðarins ráða verðlagninu á krónunni. Hinn alþjóðlegi gjaldeyrimarkaður er ólgusjór eins og Rússar og Svisslendingar hafa fengið að kenna á á þessu ári. Allt tal um að íslenskir ráðherrar geti með yfirlýsingum varið krónuna betur á opnum og frjálsum markaði, en seðlabankar annarra landa sína gjaldmiðla, er í besta falli barnaleg óskhyggja.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur