Miðvikudagur 10.06.2015 - 08:46 - Lokað fyrir ummæli

Losun hafta án ESB

Það eru ekki bara kröfuhafar sem borga losun hafta með stöðugleikaálagi eða skatti. Það gera líka íslensku heimilin og fyrirtækin sem þurfa að borga sitt stöðugleikaálag í gegnum okurvexti krónunnar.

Þó 500 ma kr. frá kröfuhöfum sé há upphæð er hún einskiptisaðgerð upp á 1.5 m kr. per íbúa. Vaxtaþrældómur krónunnar er hins vegar nokkuð sem seint mun taka enda. Hver á að borga fyrir stöðugleikann þegar kröfuhafar eru farnir?

Hagfræðingar eru strax farnir að vara við hækkandi eignaverði samhliða hækkandi vöxtum. Það verður aldeilis tvöfalt kjaftshögg fyrir ungu kynslóðina, þar sem færri og færri munu geta eignast húsnæði af sömu stærð og gæðum og foreldrar þeirra.

Þó auðvitað sé gleðilegt að samningar séu loksins að nást við kröfuhafa og höftin losuð má ekki gleyma að hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Peningar kröfuhafa er ekki fundið fé, það kemur að skuldadögum en það verða því miður aðrir sem borga en verður boðið í kröfuhafaveisluna.

Sú leið sem hér var farin við losun hafta er ekki sú eina, eins og látið er í veðri vaka. Losun hafta samhliða ESB aðild var annar valmöguleiki sem kjósendur höfnuðu. Það þýðir þó ekki að sú leið sé efnahagslega síðri. Það eru ekki margir innan ESB sem myndu kjósa íslenskt vaxtaumhverfi og verðtryggingu yfir sig jafnvel þó 10,000 evrur væru í boði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur