Fimmtudagur 11.06.2015 - 09:27 - Lokað fyrir ummæli

Eignastýring eftir höft

Margir eru eflaust farnir að velta fyrir sér hvernig þeir eigi að varðveita sparifé sitt nú þegar höftin verða losuð. Er skynsamlegt að færa fé yfir í gjaldeyri og þá hversu mikið?

Reynslan fyrir hrun sýndi að alltof margir höfðu fjárfest alltof mikið í íslenskum eignum eða eignum erlendis tengdum íslenskum aðilum. Þegar hrunið kom brann flest íslenskt sem brunnið gat.

Lexían hér eins og fyrr er skynsöm áhættudreifing. Aldrei að vera með öll eggin í sömu körfunni og þar er krónukarfan ein sú minnsta í heimi og veitir enga áhættudreifingu fyrir innlenda aðila sem eru þegar með stærstan hluta eigna sinna í krónum, þ.e. innlent húsnæði, innlendan sparnað og lífeyri sem er um 70% í krónueignum.

Hér er gott að líta yfir hafið og á fjárfestingarstefnu norska olíusjóðsins. Sá sjóður er með allar sínar fjárfestingar í gjaldeyri, þ.e. hann fjárfestir ekki í norskum krónum.  Þessi fjárfestingastefna hefur nú sannað sig eftir að norska króna féll yfir 20% gagnvart dollar á síðasta ári.  Þeir Norðmenn sem hafa fylgt norska olíusjóðinum standa uppi með gríðarlegan hagnað í eigin gjaldmiðli, á sama tíma og dregur úr þrótti norska hagkerfisins. Þannig á góð eignastýring, sem byggir á skynsamri áhættudreifingu, að virka. Nú hefur norska krónan talsverða yfirburði yfir íslensku krónuna og því ættu norskar áhættudreifingarreglur að gilda enn frekar hér á landi en í Noregi.

Vandamálið á Íslandi er að leið norska olíusjóðsins er skynsöm fyrir einstaklinginn en ósjálfbær fyrir íslenska krónuhagkerfið.  Það er hreinlega ekki til nógur gjaldeyrir til að allir fari með krónusparnað yfir í gjaldeyri á sama tíma.  Það yrði líka túlkað sem vantraust á krónuna erlendis ef allir Íslendingar væru á hlaupum með krónur yfir í gjaldeyri og væntingar myndu fljótt vakna um gengisfellingu sem myndi aftur auka útflæði á gjaldeyri. Slík atburðarrás endar með nýjum höftum.

Það er því ljóst að fystu skref í afnámi hafta verða uppdubbuð hænuskref og krónan mun alltaf búa við alls konar “varúðarreglur”. Fyrsta flokks norrænt fjárfestingarumhverfi verður aldrei í boði á Íslandi með krónuna sem gjaldmiðil. Í besta falli fá Íslendingar einhvers konar útgáfu að kínversku kerfi þar sem menn fá árlegan skammt af gjaldeyrisheimild, t.d. 10,000 dollara til erlendra fjárfestinga. En hvernig er best að fara með slíka heimild?

Tímasetningin fyrir losun hafta er ekki sú besta þegar kemur að erlendri fjárfestingu. Allar erlendar eignir eru í hæstu hæðum. Dow Jones vísitalan hefur meir en tvöfaldast frá 2009. Lítil sem engin ávöxtun er á erlendum skuldabréfamarkaði og fæstir mæla með honum um þessar mundir þegar vextir eru á uppleið. Þá verða menn að passa sig á fjárfestingasjóðum, oft fylgir þeim mikill kostnaður sem menn átta sig ekki alltaf á, en í lágvaxtaumhverfi munar um 1.7% þóknun. En umfram allt þurfa menn að passa sig á sölumönnum sem lofa gulli og grænum skógum og nota hagnaðartölur liðins tíma til að plokka þóknun af ginnkeyptum sparifjáreigendum.  Hagnaður síðasta árs hefur ekkert spágildi. Reglan er að hagnaður og áhætta fara saman.  Því meiri sem hagnaðarvonin er því meiri áhættu er fólk að taka. Og þegar kemur að hlutabréfafjárfestingum ættu menn að muna erlendu regluna um að fjárfestar verða að vera tilbúnir að tapa öllu þar.  Því segja sérfræðingar að áhættufælnir fjárfestar eigi helst ekki að fjárfesta í hlutabréfum nema þeir séu skuldlitlir og eigi góðan varasjóð upp á að hlaupa.

En það þarf ekki að leita langt eftir einu besta fjárfestingartækifæri á Norðurlöndunum.  Það er að borga niður íslensk lán.  Fátt gefur jafn góða og trygga ávöxtun.  Fyrir þá sem vilja reyna fyrir sér erlendis geta menn gert margt vitlausara en að fylgja norska olíusjóðinum og sérfræðingum hans.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur