Föstudagur 12.06.2015 - 11:06 - Lokað fyrir ummæli

Las Vegas norðursins opnar aftur!

Seðlabankastjóri hefur tilkynnt á Bloomberg að spilavíti norðursins muni opna aftur eftir 7 ára lokun. Hann lofar betri stjórnun og býður spekúlanta velkomna en biður þá að kunna sér hófs.

Hér er ég auðvitað að tala um hin frægu vaxtamunaviðskipti sem byggja á að erlendir spekúlantar taka lán í erlendum gjaldeyri sem þeir láta íslenska krónuþræla borga vextina af og hirða svo hagnaðinn sem eftir verður og flytja úr landi í gjaldeyri. Þetta er ekkert annað en fjárhættuspil sem byggir á pýramídakerfi. Þeir græða mest sem koma fyrst og fara fyrst út. Það er nú hálf furðulegt að seðlabanki sem varar við því að almennir fjárfestingarsjóðir megi ekki eiga í íslenskum bönkum skuli standa fyrir svona fjárhættuspili. Ekki er heldur að sjá að neinn íslenskur stjórnmálaflokkur setji sig á móti þessu spilavítisbrölti!

En er þetta ekki siðlaust gæti einhver spurt? Er rétt að láta íslenskt launafólk sem varla nær endum saman um hver mánaðarmót borga í Ferrari bílum og snekkjum erlendra spekúlanta? Hvers vegna stoppa menn ekki svona lagða, sérstaklega eftir hina hræðilegu reynslu fyrr á öldinni? Það er vegna þess að framtíðar „stöðugleiki“ krónunnar byggir á velvilja erlendra spekúlanta. Þetta er það verð sem Íslendingar verða að borga fyrir að halda í krónuna. Og fyrstu áhrifin eru jú góð. Gengi krónunnar mun hækka, flatskjár og bílar lækka í verði, alla vega tímabundið, og þar sem Íslendingar hugsa sjaldan lengur en fram í næstu viku er hægur vandi að selja mönnum þessa vitleysu. Það kemur að skuldadögum en er á meðan er hugsa flestir.

En þeir erlendu kúnnar sem fyrstir fá að spila í sal Seðlabankans fá afhenta teninga þar sem allar hliðar eru merktar “6”. Ekki amalegt. Hér er verið að gefa kröfuhöfum tækifæri á að vinna sitt tilbaka. Svona virkar hinn alþjóðlegi fjármálamarkaður. Ekkert er ókeypis – einskiptishagnaður ríkisins lendir á herðum heimilanna. Þetta geta menn síðan reiknað og gert upp eftir 20 ár.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur