Mánudagur 15.06.2015 - 08:02 - Lokað fyrir ummæli

Markaðsbúskapur án markaðslausna

Ísland er gott dæmi um þjóðfélag þar sem menn rembast við að reka markaðsbúskap án markaðslausna. Höftum, skömmtunum og lögum er beitt í stað þess að finna sameiginlegar lausnir. Menn sömdu ekki um Icesave og ekki um markrílinn og ekki hafa samningar náðs við hjúkrunarfræðinga en samningar virðast ætla að takast við kröfuhafa enda hafa menn eytt ómældum peningum þar til að borga hæfum útlendingum til að semja við aðra útlendinga. En ástandið í heilbrigðismálum þjóðarinnar tekur nú glansinn af þessu afreki útlendinganna. Þetta sýnir líka forgangsröðunina – peningar ofar heilsu.

Það verður ekkert fyrsta flokks heilbrigðiskerfi rekið á Íslandi nema á markaðsverði. Það þýðir lítið að horfa í baksýnisspegilinn og vona að fortíðin komi tilbaka. Það gerist ekki. Menn verða að horfast í augu við raunveruleikann og viðurkenna að markaðsbúskapur verður ekki rekinn nema að leyfa lögmálinu um framboð og eftirspurn að finna sinn farveg. Það verður ekki vinsælt vegna þess hversu ríkisafskipti hérlendis eru mikil og bjaga alla ákvarðanatöku.

En lausnin er ekki í órafjarlægð. Hana er að finna á hinum Norðurlöndunum. Þar hafa menn áratuga reynslu af því að reka markaðsbúskap sem aðlagar sig að velferðarkerfinu án endalausra inngripa stjórnmálamanna. Hvers vegna geta Íslendingar ekki lært af nágrannaþjóðunum? Eru menn enn fastir í hugmyndafræði Ólafs Ragnars um yfirburði Íslendinga í einu og öllu? Sæt hugmynd en barnaleg í besta falli.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur