Sunnudagur 13.09.2015 - 09:24 - Lokað fyrir ummæli

Krónan er gullkálfur spekúlanta

Eins og hér hefur verið skrifað um áður eru líkur á að gengi krónunnar hækki þegar höftum verður aflétt. Þetta virðast fleiri og fleiri erlendir aðilar vera farnir að veðja á, sem opnar leið fyrir kröfuhafa að ná hluta af stöðugleikaálaginu til baka. Lækkun á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa á sama tíma og Seðlabankinn hækkar vexti bendir til þess.

Erlendir aðilar munu fá borgað í evrum frá íslensku þrotabúunum og þeir geta því tekið lán í evrum og komið með til landsins sem “nýja” peninga sem þeir nota til að kaupa íslensk ríkisskuldabréf. Þeir greiða síðan erlenda lánið upp með greiðslum frá gömlu bönkunum og selja síðan íslensku ríkisskuldabréfin þegar gengi krónunnar hækkar og skipta yfir í mun fleiri evrur sem þeir mega svo fara með úr landi. Því meira sem gengið hækkar því hærri verður ágóði kröfuhafa. Og þar sem stöðugleikaálagið bætir stöðu ríkissjóðs mun það styðja við hækkun krónunnar, og álagið verður því ekki eins íþyngjandi fyrir kröfuhafa og margir halda.  En þetta tækifæri varir ekki að eilífu og því er ekki undarlegt að margir kröfuhafar hafi samþykkt stöðugleikaleiðina strax.

Þá er þessi gróðaleið aðeins opin fyrir erlenda aðila, sem takmarkar samkeppni og tryggir hámarks ágóða til kröfuhafa.  Já, blessuð krónan er ekkert annað en gullkálfur fjármálaspekúlanta sem eru snarir í snúningum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur