Föstudagur 18.09.2015 - 12:20 - Lokað fyrir ummæli

Samfélagsbankasmjörklípa

Banki sem fjárfestar vita ekki hvort verður rekinn sem samfélagsbanki eða í hagnaðarskyni hefur lítið verðgildi, sérstaklega hjá alvöru fjárfestum. Hins vegar getur slíkur banki verið spennandi kostur fyrir þá sem leika sér með fé annarra og eru fyrst og fremst að hugsa um að koma sér og sínum í aðstöðu innan íslensks fjámálakerfis. Og því meiri óvissa sem ríkir um framtíðarstefnu ríkisbankans því minni verður samkeppnin í söluferlinu og því meiri afslátt fá þeir sem kaupa, og auðveldara verður fyrir þá að láta líta út eins og að þeir hafi keypt á viðskiptalegum forsendum. Menn eiga nú að kannast við þessar aðferðir.

Þjónusta við viðskipavini mun lítið breytast þó Landsbankanum verið formlega breytt í samfélagsbanka, til þess er ekkert svigrúm á rekstrarreikningi. Og án viðskiptalegs aðhalds er líklegt að þjónustan versni þegar fram líða stundir. Hins vegar dregur allt tal stjórnmálamanna um samfélagsbanka verulega úr samkeppni þegar kemur að sölu ríkisbankans og tryggir lágmarksverð til þeirra sem ekki versla á viðskiptalegum forsendum.

Það er í raun út í hött að selja Landsbankann á meðan ekki ríkir einhugur á milli allra stjórnmálaflokka um framtíðarstefnu hans. Það mun enginn sem verslar fyrir eigin pening vilja vera minnihlutaeigandi með ríkinu, ef minnsti vafi leikur á að bankinn verði ekki rekinn á eðlilegum samkeppnisgrunni og í hagnaðarskyni.

Það er því ekki nóg að stöðugleiki ríki á fjármálamörkuðum og að rekstur bankans sé í lagi til að sala geti farið fram, eins og segir í nýlegu bréfi Bankasýslunnar. Einhugur þarf að ríkja hjá öllum stjórnmálaflokkum um framtíðarstefnu bankans. Án hennar eru menn á leið inn í fortíðina.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur