Föstudagur 18.09.2015 - 22:03 - Lokað fyrir ummæli

“ … þannig að við gerðum þetta svona“

Útskýringar borgarstjóra á hvernig borgarstjórn stóð að undirbúningi á banni á vörum frá Ísrael gefur athyglisverða en jafnframt dapurlega innsýn inn í störf æðstu manna borgarinnar.

Borgarstjóri segir að læra eigi af gömlu höfuðborg Íslands, Kaupmannahöfn, sem hafi samþykkt að skoða viðskiptabann á vörur frá landtökubyggðum Ísraelsmanna. Þetta er stórsniðug eftirásepi. Ef menn hefðu nú haft smá vit á að staldra við og nota gráu heilasellurnar áður en ákvörðun um bann á vörum frá Ísrael var samþykkt. Eitt er að samþykkja að skoða bann en annað er að samþykkja bann án þess að vinnar lágmarks heimavinnu.

Burtséð frá hvað mönnum finnst um bannið þá eru vinnubrögðin forkastanleg. Ekkert samráð við utanríkisráðuneytið. Ekkert lögfræðiálit um lögmæti ákvörðunarinnar. Ekkert áhættumat hvað varðar utanríkisviðskipti. Enginn skilningur á jafnræðishalla á ákvörðuninni.

Frasar borgarstjóra minna á frasa Landsbankamanna sem eru í sama bakkgírnum yfir mikilvægum ákvörðunum þar sem heimavinnan klikkaði. Það eru engin styrkleikamerki þegar borgarstjóri er kominn í bakkgír aðeins tveimur dögum eftir að ákvörðunin var samþykkt. Þetta klúður hefur veikt stöðu borgarstjóra sem ekki var sterk fyrir eftir hörmulega rekstrarniðursöðu A-sjóðs borgarinnar. Þá er þessi ákvörðun klassískt dæmi um hóphugsun hjá einsleitum hópi sem lifir og hrærist í eigin heimi. Lítil klíkusamfélög þurfa að vera sívakandi yfir hóphugsunarhættunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur