Þriðjudagur 29.09.2015 - 15:52 - Lokað fyrir ummæli

Volkswagen og Ísland

Skandallinn hjá Volkswagen minnir fjárfesta á hversu mikil áhætta fylgir slæmum stjórnarháttum. Stjórn Volkswagen minnir meira á íslenska klíkustjórn en stjórn alþjóðlegs stórfyrirtækis. Eins og oft á Íslandi er stjórn Volkswagen full af kunningjum, fjölskyldumeðlimum og stjórnmálamönnum. Þar sitja fulltrúar stærstu eigenda sem hafa meiri áhuga á innbyrðis deilum og valdabrölti en að stjórna fyrirtækinu af kunnáttu og festu. Þar er t.d. ekki að finna neina óháða stjórnarmenn með yfirgripsmikla alþjóðlega stjórnunarreynslu, hvað þá reynslu af bifreiðahönnun eða framleiðslu. Hins vegar situr fasteignasali í stjórninni.

Íslenskir fjárfestar mættu gefa meiri gaum af stöðu stjórnarhátta hjá íslenskum fyrirtækjum. Eitt aðalhlutverk stjórnar er að veita framkvæmdastjórn aðhald og hafa eftirlit með mikilvægum ákvörðunum. Það er ekki nóg að fullyrða að slíkt fari fram í árlegri skýrslu stjórnar eins og Volkswagen gerir. Þegar samband stjórnarmanna og framkvæmdastjóra er orðið of náið og framkvæmdastjórinn er farinn að stjórna fyrirtækinu eins og prívat sjoppu eiga viðvörunarljós að blikka hjá fjárfestum.

Volkswagen er skólabókardæmi um hvað getur gerst þegar fyrirtæki fylgja nútíma stjórnarháttum aðeins í orði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur