Föstudagur 09.10.2015 - 14:25 - Lokað fyrir ummæli

Að sofa á Verðinum

Á vef ríkisbankans segir “Viðskiptavinir Landsbankans njóta sérkjara á tryggingum hjá Verði”. Nú þegar Arion banki hefur á ótrúlegan hátt eignast meirihluta í Verði verður auðvelt fyrir bankann að auglýsa: “Viðskiptavinir Varðar njóta sérkjara á bankaþjónustu hjá Arion”.  Vörður er líklega stútfullur af viðskiptavinum Landsbankans.

Eitt er að kaupa tryggingarfélag, annað að fá stóran hóp viðskiptavina stærsta samkeppnisaðilans í kaupbæti. Á skömmum tíma hefur Arion tryggt sér bæði korta- og tryggingarfélög með kaupum á Valitor og Verði á meðan ríkisbankinn er upptekinn af nýrri glerhöll við Hörpu.

Hvers vegna keypti Landsbankinn ekki Vörð? Eignarhaldið á sinn þátt í því. Arion banki veit að stjórn Landsbankans er veik fyrir, eftir Borgunarklúðrið og verður að vanda sig. Eins og svo oft á Íslandi, vanda menn sig með því að gera ekkert. Það getur verið jafn hættulegt að kaupa á yfirverði og selja á undirverði. Þennan veikleika hefur Arion notfært sér. Þá er óvissan um framtíðareignarhald Arion banka þáttur hér, en sú óvissa gefur núverandi stjórn bankans frjálsari hendur að taka “stórar” ákvarðanir.

Borgun var “tæknilegt” klúður en salan á Verði til Arion er viðskiptalegt klúður sem líklega á eftir að kosta Landsbankann margfalt meir en hið fyrra. Þeir sem eru spenntir fyrir að verða minnihlutaeigendur með ríkinu í Landsbankanum ættu að kynna sér stefnu bankans eða kannski er réttar að kalla þetta stefnuleysi?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur