Laugardagur 10.10.2015 - 15:11 - Lokað fyrir ummæli

Okurbúlla ríkisins

Ein mesta okurbúlla á Íslandi er rekin af ríkinu. Og eins og oft með ríkisrekstur er þessi okurbúlla rekin með bullandi tapi og hefur þurft stuðning ríkisins í mörg ár til að halda sér á floti. Þetta er Íbúðalánasjóður.

Verðtryggðir vextir hjá ÍLS eru 4.2% en ættu að vera nálægt 3% ef sjóðurinn væri rekinn af faglegum markaðsaðilum en ekki stjórnmálamönnum. Í skjóli þessarar vitleysu græða bankar á tá og fingri enda bjóða þeir vexti sem eru nær 4.2% en 3%. Þannig er hluti af vaxtaokri á íslenskum húsnæðismarkaði stjórnmálamönnum að kenna. Þeir eru frekar hluti af vandanum en lausninni.

En hvers vegna hafa vextir lækkað svona mikið á undanförnum misserum? Ein skýring er að erlendir spekúlantar og hrægammar hafa verið miklu fljótari að notfæra sér uppgang í íslensku hagkerfi en seinvirkir stjórnmálamenn. Erlend eftirspurn eftir íslenskum skuldabréfum hefur hækkað verð þeirra mjög, sem aftur lækkar ávöxtunarkröfuna. Því miður hefur gengið mjög seint og illa að koma þessari lækkun í vasa almennings. Dýrt og óskilvirkt banka- og lánasjóðskerfi hefur notað þessa búbót í eigin þágu til að viðhalda ósjálfbæru viðskiptamódeli.

Sú staðreynd að lífeyrissjóðirnir er sjálfir farnir að fara út á húsnæðislánamarkað með kjör sem eru nær “eðlilegum” markaðskjörum sýnir betur en flest annað hvað íslenskur fjármálamarkaður er frumstæður og þjónar almenningi illa.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur