Þriðjudagur 13.10.2015 - 17:05 - Lokað fyrir ummæli

Dýr „fullnaðarsigur“ í Icesave

Bæði forsetinn og forsætisráðherra lýsa yfir að Ísland hafi unnið fullnaðarsigur í Icesave og að því sé lokið. En er það rétt? Kostaði Icesave þá Ísland ekki neitt og átti bú gamla Landsbankans fyrir Icesave. Svarið við því er já og nei. Málið er nefnilega nokkuð flóknara en margir vilja viðurkenna.

Þrotabúa LBI mun líklega innheimta um 1650 ma kr eða um 250 ma kr umfram Icesave og aðrar forgangskröfur. Nær allar eignir LBI eru í gjaldeyri þökk sé íslenska ríkinu sem keypti innlendar eignir gamla bankans fyrir um 380 ma kr í gjaldeyri auk vaxta. Þessi kaup skiptu sköpum og aðeins þannig eignaðist þrotabú LBI nógan gjaldeyri til að borga Icesave. Og þessi gjaldeyrisskuld ríkisbankans ógnar nú efnahagslegum stöðugleika samkvæmt Seðlabankanum.

Kröfuhafar hinna bankanna geta ekki vænst að fá sömu fyrirgreiðslu. Þeir þurfa að gefa mikið eftir af innlendum eignum sínum og fá ekki nema brot af þeirri upphæð sem ríkið borgaði Icesave kröfuhöfum fyrir Landsbankann. Þeir útreikningar eru flóknir en stærðargráðan hleypur á hundrað milljörðum. Sú staðreynd að þrotabú LBI mun líklega borga innan við 5% af heildar stöðugleikaframlagi sýnir best hversu mikla fyrirgreiðslu Icesave kröfuhafar fengu frá íslenska ríkinu.

Það sorglega er að þessi „fullnaðarsigur“ í Icesave varð miklu dýrari en efni stóðu til. Ríkið keypti á allt of háu verði af Icesave kröfuhöfum, borgaði allt í gjaldeyri og gleymdi að setja inn varnagla skyldi Icesave deilan fara fyrir dómstóla. Hér hafa tapast fjármunir sem hefðu geta byggt nýja Landsspítala og gott betur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur